Húsvíkingurinn Örlygur Hnefill Örlygsson er snjall áhugaljósmyndari eins og ýmsum mun kunnugt og hefur meðal annars átt ljósmyndir á sýningum. Hann tók nýverið þátt í samnorrænni portrettmyndasamkeppni þar sem heimilt var að senda inn ljósmyndir, teikningar, málverk og skúlptúra. Alls bárust um 1.300 verk og meðal þeirra var ljósmynd Örlygs af rithöfundinum Thor Vilhjálmssyni.
Fyrir lá að úr innsendum verkum í keppninni yrðu valin 50 verk til sýningar í Frederiksborgarsafni í Danmörku í maí næstkomandi og yrðu þær myndir síðan gefnar út á bók. Sýningin verður á faraldsfæti um Norðurlönd og kemur til Íslands í haust.
Að morgni síðastliðins miðvikudags var hringt í Örlyg frá Danmörku og honum tilkynnt að ljósmyndin af Thor væri eitt af þeim 50 verkum sem valin hefðu verið til sýningar og útgáfu. „Sá sem hringdi var að forvitnast um manninn á myndinni og ég reyndi eftir bestu getu að gera grein fyrir þessum mikla meistara. Nokkru síðar sama dag bárust þær fréttir að Thor væri allur, þannig að þetta var sérkennileg tilviljun,“ segir Örlygur.
Örlygur tók myndina sumarið 2008 þegar Thor var hér með myndlistarsýningu í Safnahúsinu. „Ég myndaði hann á sýningunni en fékk hann svo til að koma með mér út í Vík þar sem ég var með lítið stúdíó og þar sat hann fyrir hjá mér í um klukkutíma. Þetta var ógleymanleg stund. Thor sagði mér sögur af listamönnum og ljósmyndurum sem hann hafði kynnst og lék á alls oddi. Og allir þekkja frásagnargáfur hans.
Svo kynntist ég honum betur þegar ég var að vinna á Listasafninu á Akureyri og við vorum þar með yfirlitssýningu á verkum vinar hans, Tryggva Ólafssonar, og þar var Thor tíður gestur. Algjörlega ógleymanlegur maður,“ sagði Örlygur Hnefill Örlygsson. –JS



