Veitingastaðurinn Fish & Chips Lake Mývatn er kominn í úrslit í alþjóðlegum flokki The National Fish and Chips Awards 2026, einum virtustu verðlaunum Breta á sviði sjávarrétta, en segja má að fiskur og franskar séu óformlegur þjóðarréttur breta. Tilnefningin var tilkynnt í vikunni og er þetta í 38. skipti sem verðlaunin eru veitt af National Federation of Fish Friers, samtökum sem hafa starfað í Bretlandi frá árinu 1913.
Fengu heimsókn frá Bretlandi
Fulltrúar samtakanna heimsóttu Ísland í sumar og komu þá við hjá Fish & Chips Lake Mývatn. Að þeirra hvatningu sótti veitingastaðurinn um, en umsóknarferlið er umfangsmikið og krefst gagna um uppruna og meðferð hráefnis, gæði verkferla, hreinlæti og stöðugleika í framleiðslu.
Nú hefur verið staðfest að fyrirtækið sé eitt af þremur sem keppa í úrslitum í alþjóðlegum flokki. Verðlaunaafhendingin fer fram 25. febrúar 2026 í London, á Park Plaza at Westminster Bridge, þar sem hundruð gesta úr veitinga- og sjávarútvegsgeiranum koma saman.
„Við erum ótrúlega stolt af þessari tilnefningu, erum eitt af þremur fyrirtækjum sem komin eru í úrslit í alþjóðlegum flokki,“ segir Unnur Sigurðardóttir framkvæmdarstjóri The Little Fish Company sem rekur staðinn. Eigendur Fish & Chips Lake Mývatn eru þau Hanna Sigga, Stefán, Haukur, Unnur, Sigurgeir og Sarah.
Fish & Chips Lake Mývatn opnaði árið 2022 og hefur frá fyrsta degi hlotið frábærar viðtökur, bæði hjá heimafólki og ferðamönnum. „Um tveimur árum áður en við opnuðum voru vinirnir Haukur og Stefán á rúntinum í Mývatnssveit þegar þeim datt þessi hugmynd í hug, þetta væri eitthvað sem vantaði í annars frábæra flóru í sveitinni. Fljótlega fundum við heppilegt húsnæði og gátum keypt gamla „Útibúið“ sem stendur miðsvæðis í Reykjahlíðarþorpinu. Þá var allt sett á fullt við framkvæmdir og opnuðum við í maí 2022,“ segir Unnur.
Hún segir viðtökurnar hafa verið vonum framar. „Við erum að fá frábærar einkunnir á Tripadvisor og Google. Við opnuðum að vori 2022 og höfum vaxið og dafnað á ári hverju síðan, við þökkum það góðu hráefni, stöðugleika í framsetningu, lykilatriði er að rétturinn sé alltaf eins og svo höfum við alltaf haft frábært starfsfólk. Þá erum við ótrúlega þakklát viðskiptavinum okkar sem margir hverjir koma aftur og aftur.“
Uppskriftin er Top Secret
„Uppskriftin kemur frá okkur vinafólkinu og stofnendum Fish and Chips Lake Mývatn, Stefáni, Hönnu Siggu, Hauki og Unni. Stefán og Haukur eru sjónmenn og gera mjög mikla kröfu um afburða hráefni og er fiskurinn því sjófrystur þorskur af bestu gæðum frá Sólberginu Óf, sem Ísfélagið gerir út. Við gerðum fjölda tilrauna í bílskúrnum hjá Stefáni og Hönnu Siggu og gáfum foreldrum, börnum og vinum smakk þar til við urðum ánægð. Uppskrift: Top Secret. Við bjóðum upp á tvær heimagerðar sósur sem eru gerðar daglega frá grunni á veitingastaðnum. Önnur er Tartarsósa og á Hanna Sigga heiðurinn af uppskriftinni af henni, hina köllum við Fjölskyldusósu og kemur hún úr hugmyndabanka Hauks. Þá bjóðum við líka upp á hefðbundna kokteilsósu,“ segir Unnur að lokum.


