Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis, er látinn. Með fráfalli hans kveður íslenskt samfélag einn áhrifamesta stjórnmálamann síðari áratuga.
Halldór sat á Alþingi um áratugaskeið. Hann var landskjörinn þingmaður Norðurlands eystra á árunum 1979-1983, kjördæmakjörinn þingmaður Norðurlands eystra frá 1983 til 2003 og þingmaður Norðausturkjördæmis á árunum 2003-2007. Á þessum árum gegndi hann embætti ráðherra og síðar forseta Alþingis.
Húsavík.com ræddi við heiðurshjónin Katrínu Eymundsdóttur, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Húsavíkur, og Gísla Auðunsson lækni og skógarbónda. Katrín var mágkona Halldórs og ríkur vinskapur milli þeirra hjóna og Halldórs um áratugaskeið. Leiðir þeirra lágu einnig saman á vettvangi stjórnmálanna.
Gísli Auðunsson lýsir Halldóri svo: „Halldór þótti nú stundum hrjúfur á yfirborðinu en var ákaflega hlý persóna og mikill vinur vina sinna. Og ekki bara vinur vina sinna, heldur afar hjálplegur öllum sem hann var í sambandi við, sérstaklega ef honum fannst fólk vera aðstoðarþurfi.“

Þá rifjar hann einnig upp skemmtilega hlið Halldórs: „Hann var mjög skemmtilegur í persónulegum viðkynnum, enda hafsjór af fróðleik og kunni ósköpin öll af ljóðum. Maður kom aldrei að tómum kofanum hjá honum þegar rætt var um skáldskap, sérstaklega skáldskap í bundnu máli.“
Halldór fæddist í Reykjavík árið 1938 og flutti ungur norður í land til náms en hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959 og fór þaðan í lögfræðinám við Háskóla Íslands. Halldór tók fyrst sæti á Alþingi sem varaþingmaður árið 1971.
„Hans verður sárt saknað af fjölskyldu og vinum,“ segja Katrín og Gísli að lokum.

Stefán Friðrik Stefánsson ristjóri á Akureyri skrifar um Halldór á Facebook síðu sína: „Halldór Blöndal, kær félagi og vinur á lífsins leið, er látinn. Honum á ég svo margt að þakka: alla hvatninguna, heilræðin og hlýjuna gegnum árin öll. Enginn hefur verið mér meiri fyrirmynd og hvatning í vinnusemi og ástríðu fyrir pólitík þau fjöldamörgu ár sem ég hef unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Það er margs að minnast og margs að þakka fyrir farsæla forystu hans hér nyrðra um áratugaskeið, ötult félagsstarf og útgáfustarf Íslendings þar sem hann reyndist lykilmaður í því að efla flokkinn til dáða í ræðu og riti. Einnig er ómetanleg leiðsögn hans til okkar sem yngri voru í félagsstarfinu þar sem hann var ávallt hvetjandi og einlægur.
Halldór var vinnusamur leiðtogi sem vann vel fyrir umbjóðendur sína, alltaf með puttann á púlsinum út í kjördæminu og afar vel tengdur við hinar dreifðu byggðir. Stuðningsmönnum flokksins hér nyrðra var annt um oddvita sinn. Vinir Dóra voru fjölmargir og vildu veg hann sem mestan, unnu af krafti til að svo yrði… svo hann næði árangri fyrir flokksheildina alla í kjördæminu – rödd flokksins í kjördæminu yrði öflug á þingi.
Halldór sýndi og sannaði atorku sína og metnað í flokksstarfinu með því að helga sig uppbyggingu félagsstarfs eldri flokksmanna eftir að þingferlinum lauk þar sem hann sinnti blómlegu félagsstarfi langt fram á níræðisaldur meðan heilsan entist. Hann mætti á sinn síðasta landsfund í marsmánuði og flutti þar röggsama kveðjuræðu til félaga sinna sem eftir var tekið. Hann var einfaldlega fremstur meðal jafningja í pólitísku starfi á sínu svæði og verðugur fulltrúi okkar um víðan völl, sannur karakter sem gaf pólítísku lífi lit og mannlegt gildi.
Við leiðarlok þakka ég flokksfóstra mínum langa og farsæla samfylgd og vinskapinn og votta fjölskyldu hans innilega samúð. Blessuð sé minning Dóra.“


