Íbúar á Hvammi, dvalarheimili aldraðra, bjóða nú Húsvíkingum og nærsveitungum á notalegan og einstakan handverksmarkað sem er opinn alla virka daga klukkan 10–12 og 13–15 fram að jólum. Þar má finna fjölbreytt og vandað handverk sem íbúar hafa unnið af alúð og samviskusemi allt árið – og kjallarinn á Hvammi iðar af lífi þegar markaðurinn stendur yfir.
Á boðstólum eru tálgaðir fuglar sem syngja, viðarskurðarverk, eldhúsáhöld, klukkur, jólatré og margt fleira, auk hlýrra og nytsamlegra prjónavara á borð við sokka, vettlinga og peysur. „Vantar þig jólagjöf? Þá er tilvalið að kíkja í kjallarann á Hvammi og skoða hvað er til,“ segir í tilkynningu íbúanna. „Sjón er sögu ríkari og alltaf heitt á könnunni.“
Lilja Hrund Másdóttir, sem sér um félagslíf íbúa á Hvammi, segir markaðinn skipta íbúana miklu máli.
„Það fólk sem að þessum markaði stendur er fullorðið fólk sem er hætt á vinnumarkaðnum og það sem auðvitað skiptir mestu máli fyrir það fólk er að hafa einhverja afþreyingu í lífinu. Þau hafa fundið sér verkefni sem þau geta unnið að allan ársins hring og mæta mjög samviskusamlega í vinnustofur sínar til þess. Þessi markaður er þeirra uppskeruhátíð og vona þau að fólk komi og kíki á þau, líka bara til að sýna sig og sjá aðra.“
Hún hvetur bæjarbúa eindregið til að líta við ekki aðeins til að gera góð kaup heldur til að styðja við bakið á íbúunum og hitta þá í leiðinni. Enginn posi er á staðnum, en hægt er að millifæra.
Handverksmarkaðurinn á Hvammi er þannig ekki bara markaður – heldur kærkomin samverustund í hjarta samfélagsins.



