Milljónir horfa á vinnuvélamyndbönd Margrétar Dönu

Margrét Dana Þórsdóttir er ekki að eltast við hefðbundnar ímyndir eða væntingar. Hún stundar nám í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri, braut þar sem karlar eru enn í miklum meirihluta, og vinnur samhliða náminu við vinnuvélar. Um leið hefur hún vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum með skemmtilegum myndböndum af störfum sínum sem milljónir hafa horft á víða um heim.

Áhuginn á vélum kviknaði snemma. Margrét ólst upp í verktakabransanum og hefur frá blautu barnsbeini verið umkringd vélum og vinnusvæðum. Hún segir sjálf í viðtali við Kastljós RÚV að hún hafi byrjað á jarðýtu aðeins 12 ára gömul, þótt hún hafi þá varla náð niður á pedalana. Í dag vinnur hún hjá fjölskyldufyrirtækinu Skútabergi ehf. og fer nánast hverja helgi á suðausturhornið þar sem fyrirtækið kemur að stórframkvæmdum á hringveginum sem undirverktaki fyrir Ístak.

„Það er kannski ekki steríótýpan að einhver ung stelpa sé á ýtu,“ segir Margrét í viðtali við Kastljós, en bætir við að tæknin á bak við vélarnar sé flókin og krefjandi, þótt vinnan virðist einföld á yfirborðinu. Jarðýtan er hennar uppáhaldsvél og hún segist einfaldlega njóta þess að vinna með höndunum.

Myndbönd Margrétar á TikTok og öðrum miðlum urðu til af tilviljun. Hún ákvað einfaldlega einn daginn að taka upp stutt myndband úr vinnunni og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Síðan hefur boltinn rúllað.

Ljósmynd af vef VMA