Minn stærsti draumur að Víkurraf færi í rúmgott og sérhannað húsnæði

Víkurraf rafverktakar eru þessa dagana að koma sér fyrir í nýjum húsakynnum að Fiskifjöru 5, en fyrirtækið á sér langa sögu í samfélaginu, sem má raunar rekja aftur til ársins 1960. Fyrirtækið flytur nú í rúmgott og sérhannað húsnæði sem markar nýjan kafla í sögu fyrirtækisins, en árið 2011 sameinaðist Víkurraf raftækjaversluninni Öryggi og hefur fyrirtækið gert út úr fyrrum húsakynnum þess síðarnefnda í miðbæ Húsavíkur undanfarin ár.

Áki Hauksson framkvæmdastjóri Víkurrafs segir að eftir að hætt var rekstri raftækjaverslunar árið 2021 hafi húsnæðið á Öskjureitnum ekki verið hentugt starfseminni lengur.

„Víkurraf, sem eingöngu rafverktaki, átti ekki heima lengur við Öskjureitinn í miðbæ Húsavíkur þar sem á að vera verslun. Ég rek svo Víkurraf frá 2021 með þrjá óvirka eigendur. Stefnan var nokkuð óljós en reynt var að selja fyrirtækið nokkrum sinnum, sem gekk ekki. Við seljum húsnæðið til Birgittu í Garðarshólma árið 2022 og höfum leigt af henni síðan,“ segir Áki.

Fulltrúar frá Rafeyri og Víkurraf

Rafeyri kemur inn í reksturinn

„Í febrúar 2024 kemur Rafeyri inn sem hluthafi og eignast 71% í fyrirtækinu, rest eigum við nokkrir sem vinnum hjá fyrirtækinu, þar á meðal ég. Rafeyri vill í framhaldi efla fyrirtækið og leggur til að við kaupum húsnæði, sem reyndar var minn stærsti draumur eftir söluna á Garðarsbrautinni. Úr varð að stjórn Víkurrafs ákveður að kaupa í Fiskifjöru 5 í fyrra og festum við munnlegan samning við Trésmiðjuna Rein. Byrjað er að reisa húsið í júní og okkur afhent okkar hluti í september,“ segir Áki.

Eitt verkanna sem Hulda Ellý hefur málað fyrir nýjar höfuðstöðvar Víkurrafs

Nýjar höfuðstöðvar prýddar einstakri list

„Við höfum verið með úrvals iðnaðarmenn með okkur í þessum framkvæmdum sem hafa staðið sig vel. Einnig fékk ég listakonuna Huldu Ellý Jónsdóttur, sem málar myndir á kapaltromlur, og munu þær prýða kaffistofu Víkurrafs.

Húsnæðið er ekki alveg klárt; kaffistofa og skrifstofur eiga eftir að græjast. Birgitta þurfti hins vegar að fá Garðarsbrautina, þannig að ég ákvað að byrja að flytja í gær. Það er hægt þar sem neðri hæðin á húsnæðinu er nánast klár.

Útskriftarnemar FSH hjálpa við flutninginn

Mér datt það í hug fyrir nokkrum vikum síðan, þegar ég hugsaði um hvernig væri best að flytja fyrirtækið, að fá útskriftarnema Framhaldsskólans í lið með okkur. Þar sem þau fara í útskriftarferð eftir skólann, var talað við þau þá strax. Þau voru meira en tilbúin í það, en það drógst þangað til í gær að flytja.

En þrátt fyrir að vera byrjuð í prófum mættu þau í gær, frábærir krakkar, skemmtileg og hörkudugleg, og stóðu sig mjög vel. Víkurraf ætlar að styrkja þau í staðinn fyrir hjálpina,“ segir Áki að lokum.

Fréttavefurinn Húsavík.com óskar Víkurrafi til hamingju með hið glæsilega nýja húsnæði.

Fyrrum höfuðstöðvar Víkurrafs á Öskjureit (Ljósmynd: Áki Hauksson)

Nýjar höfuðstöðvar Víkurrafs að Fiskifjöru 5 (Ljósmynd af vef Fasteignasölunnar Lögeignar)