Móbergsvinnsla Heidelberg á Bakka geti minnkað kolefnisspor sementsframleiðslu

Sveitarfélagið Norðurþing og Heidelberg hafa undirritað viljayfirlýsingu um mögulega uppbyggingu á starfsemi Heidelberg á iðnaðarsvæðinu á Bakka norðan Húsavíkur. Um er að ræða verkefni sem snýr að þurrkun og vinnslu móbergs, sem nýta á sem íblendiefni í sementsframleiðslu.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun Heidelberg nú kanna hvort fýsilegt sé að koma slíkri framleiðslu fyrir á Bakka til framtíðar. Félagið er þegar með rannsóknarleyfi til að kanna efnistöku á svæðum ofan Bakka og í Grísatungufjöllum, auk þess sem áhugi er á að rannsaka nánar efnisgæði sanda við Jökulsá á Fjöllum.

Sveitarstjóri segist vongóð

„Ég bind miklar vonir við þessa viljayfirlýsingu og að framleiðsla á möluðu móbergi til útflutnings og íblöndunar við sement í þeim tilgangi að minnka verulega kolefnisspor sementsframleiðslu verði á Bakka í framtíðinni. Nú eru í gangi rannsóknir á gæðum efnis og ef hægt er að vinna umhverfismat samhliða eins og stefnt er að styttist tíminn þar til kemur í ljós hvort þetta gengur upp hjá okkur eða ekki. Svona framleiðsla skapar verðmæt störf og tekjur fyrir sveitarfélagið í formi skatta og gjalda. Einnig kallar þetta á mikil umsvif í höfnum Norðurþings og það er einmitt þannig starfsemi sem við þurfum nauðsynlega á að halda til að nýta þá innviði sem eru hér til staðar. Vonandi getur þessi starfsemi orðið að veruleika á næstu árum hjá okkur í Norðurþingi,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings.

Aðspurð um tímarammann segir Katrín að um sé að ræða umhverfismatsskylt verkefni. „Rannsóknir og ferill umhverfismats taka að lágmarki 2 ár,“ segir sveitarstjóri.

Iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík (mynd Rafnar Orri Gunnarsson)

Sementsframleiðsla ábyrg fyrir 8% af losun gróðurhúsalofttegunda

Í yfirlýsingu frá Norðurþingi kemur fram að aðilar séu sammála um að markmið samstarfsins sé að kanna og, eftir atvikum, leggja grunn að uppbyggingu starfsstöðvar Heidelberg á Bakka til fullvinnslu jarðefnis. Slík uppbygging er talin geta skapað aukna atvinnustarfsemi og haft jákvæð áhrif á sveitarfélagið, í samræmi við áætlanir Norðurþings um atvinnuþróun og nýtingu iðnaðarsvæðisins. Stefnir Heidelberg að því að vinna við umhverfismat fari fram samhliða áframhaldandi rannsóknum á mögulegum efnistökusvæðum.

Heidelberg hafði áður skoðað möguleika á að koma á fót mölunarverksmiðju í Ölfusi, en þau áform voru felld í íbúakosningu þar. Í grein sem Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelberg, skrifaði á síðasta ári kom fram að sementsframleiðsla beri ábyrgð á um 8% af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á heimsvísu. Þar benti hann á að þrátt fyrir mikla notkun sements væri nauðsynlegt að leita leiða til að draga verulega úr kolefnisspori framleiðslunnar. Að hans sögn er verkefni Heidelberg dæmi um slíka nálgun, þar sem markmiðið er að minnka losun með breyttri efnanotkun og nýjum framleiðsluaðferðum.