Nýr flóttastigi á Samkomuhúsið en mikils viðhalds þörf

Leikfélag Húsavíkur er eitt elsta starfandi leikfélag landsins og hefur í meira en öld verið órjúfanlegur hluti af menningarlífi á Húsavík. Félagið var stofnað árið 1900 og frá árinu 1974 hefur það haft umsjón með gamla samkomuhúsinu sem hefur verið heimavöllur leikfélagsins, kvikmyndahús um langt skeið og vettvangur fjölbreyttrar menningarstarfsemi, tónleika og viðburða. Flóttaleið úr húsinu var orðin mjög léleg, en gamall viðarstigi var úr sal á efri hæð og niður með hlið hússins. Nýverið var ráðist í byggingu nýrrar flóttaleiðar. Við hittum Helgu Sveinbjörnsdóttur formann leikfélagsins sem segir að þetta hafi verið mjög þörf framkvæmd til að bæta öryggismál í húsinu.

„Endurnýjun á flóttastiga úr sal samkomuhússins er framkvæmd Trésmiðjunnar Rein fyrir Norðurþing. Það var snemma á síðasta ári sem LH óskaði eftir úrbótum varðandi þennan stiga. Okkur þykir mjög gleðilegt að orðið var við því og erum við afar þakklát fyrir að hann sé kominn,“ segir Helga. Hún segir að mikilla endurbóta sé þörf á húsnæðinu.

„Þetta menningarlega mikilvæga og sjarmerandi hús hefur verið vanrækt í áratugaraðir. Endurnýjun flóttastiga var eitt af þeim verkefnum sem við töldum í algjörum forgangi að ráðast í. Það hefur verið gott samtal milli Leikfélagsins og Norðurþings um hvað þarf að gera, og er það okkar upplifun að það sé vilji til að gera húsið betra, en þetta er alltaf spurning um peninga og forgangsröðun. Við vorum vongóð um að húsið fengi andlitslyftingu á síðastliðnu sumri en það náðist ekki. Við höfum trú á og vonum að það verði fundin leið til að bæta ásýnd hússins á næsta ári. Það er aðkallandi að laga ytra byrði hússins svo það haldi betur vatni og vindum. Þá fyrst verður hægt að taka til hendi og endurbæta innandyra,“ segir Helga

Halda áfram samtali og bjóða samvinnu

Hún segir þakrennu, þakniðurfall og snjógildru ekki til staðar á húsinu. „Sem gerir það að verkum að flóttastiginn nýji fyllist af klaka og snjó á veturna. Ekki bætir úr skák að léleg eða engin einangrun er í þaki hússins til beggja enda, yfir sviði og tækni lofti, en fyrir miðju húsi, yfir salnum er hún í lagi. Þetta veldur því að mikil klakasöfnun er á þakbrúnum hússins og skapar mikla slysahættu í ákveðnum aðstæðum, fyrir gangandi vegfarendur á gangstétt og fyrir okkur sem göngum um bak innganginn,“ segir Helga

„Við höldum áfram samtali og bjóðum samvinnu þar sem það á við. Við trúum því að bæði eigendur hússins og allir notendur þess séu sammála um að gamla samkomuhúsið eigi þá virðingu skilda að það fái andlitslyftingu og verði sögu sinni og stöðu til sóma,“ segir Helga að lokum.