Dregið var í gjafaleik Markþings á stjórnarfundi félagsins í morgun. Heiðar Hrafn Halldórsson, stjórnarmaður Markþings, segir leikinn hafa tekist vonum framar. „Þáttakan var frábær og voru samtals 176 einstaklingar í pottinum. Sala Húsavíkurgjafabréfa gengur vel og er mikilvæg til að efla verslun og þjónustu í heimabyggð. Leikurinn var gerður til að vekja athygli á gjafabréfunum í aðdraganda jóla,“ segir Heiðar.
Sigurvegari gjafaleiksins var Sigríður Birgisdóttir, sem hlaut 50 þúsund krónur í formi Húsavíkurgjafabréfa. Markþing birti síðdegis mynd af Sirrý við afhendingu vinningins og óskaði henni innilega til hamingju og þakkaði jafnframt öllum þeim sem tóku þátt.
„Gjafabréfin má nýta í fjölda verslana og þjónustufyrirtækja á Húsavík og í nágrenni, og eru því kærkomin í jólapakkana,“ segir Heiðar.

