Soroptimista systur á Húsavík seldu 170 blómvendi til styrktar Píeta

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis tók virkan þátt í árlega átakinu Roðagyllum heiminn, sem berst gegn ofbeldi gagnvart konum og stúlkum. Á dögunum seldu soroptimista systur um 170 blómvendi, og voru blómin appelsínugular nelikkur, sem tákna von, vernd og samstöðu.

„Allur ágóði af sölunni rann óskipt til Píeta samtakanna, sem styðja við einstaklinga í sjálfsvígshættu og aðstandendur þeirra. Þannig lögðu Soroptimistar sitt af mörkum bæði til vitundarvakningar og til þess að styrkja mikilvægt grasrótarstarf á Íslandi,“ segir Guðný María Waage, verkefnastjóri Soroptimista systra á Húsavík

„Átakið Roðagyllum heiminn stendur á hverju ári frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi SÞ gegn ofbeldi gagnvart konum, til 10. desember, mannréttindadegi SÞ. Í ár beinist átakið sérstaklega að stafrænnu ofbeldi, sem getur átt sér stað hvar sem er í heiminum og snertir konur og stúlkur á öllum aldri,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Soroptimistar eru alþjóðasamtök vinnandi kvenna sem starfa saman að því að efla lífsgæði kvenna og stúlkna, skapa tækifæri og stuðla að friðsælum, sterkum samfélögum. „Markmiðið er að konur geti látið drauma sína rætast og notið sömu tækifæra og aðrir, hvort sem er sem einstaklingar eða sem samstilltur hópur,“ segir Guðný að lokum.

Efnisviðvörun: Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg.

Einstaklingum sem glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á að leita sér aðstoðar hjá:
Upplýsingasíma heilsugæslunnar í síma 1700
Netspjalli Heilsuveru á heilsuvera.is
Hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 eða netspjalli á 1717.is
Píeta samtökunum í síma 552 2218

Þeim sem hafa misst ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning hjá:
Sorgarmiðstöð í síma 551 4141
Upplýsingasíma heilsugæslunnar í síma 1700
Netspjalli Heilsuveru á heilsuvera.is

Píeta samtökunum í síma 552 2218