Hafrún Olgeirsdóttir hefur verið áberandi í samfélaginu á Húsavík um árabil, bæði sem öflug íþróttakona og síðan á vettvangi sveitarstjórnarmála. Hún kom inn sveitarstjórn Norðurþings árið 2019 og hefur síðan gegnt fjölda trúnaðarstarfa, þar á meðal sem formaður byggðaráðs og varaforseti sveitarstjórnar. Áður en hún sneri sér að stjórnmálum hafði Hafrún átt farsælan feril í knattspyrnu á árunum 2005–2018, leikið með Völsungi, Þór/KA og KR, og var árið 2015 markahæsti leikmaður landsins í efstu tveimur deildum karla og kvenna á Íslandi, afrek sem fáir jafna.
Hafrún er fædd árið 1991 og býr á Húsavík með eiginmanni sínum, Jónasi Hallgrímssyni, og börnum þeirra þremur. Hún er lögfræðingur að mennt, lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2016 og starfar í dag sem íþrótta- og tómstundafulltrúi sveitarfélagsins. Frá því hún tók sæti í sveitarstjórn hefur hún einnig setið í fjölskylduráði, starfað í stjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og komið að fjölmörgum verkefnum sem snúa að uppbyggingu samfélagsins.
Fyrir ári síðan hóf Hafrún fæðingarorlof með sitt þriðja barn og hefur nú tekið þá ákvörðun að snúa ekki aftur í sveitarstjórn þá mánuði sem eftir eru af kjörtímabilinu fram að kosningum. Örlygur Hnefill ræddi við Hafrúnu á þessum tímamótum um vegferð hennar, frá knattspyrnuvellinum yfir í stjórnmálin, og þá helstu lærdóma sem þessir tveir vellir hafa kennt henni.
Verkefni sem skilja eftir sig spor
Á sjö árum í sveitarstjórn hefur Hafrún komið að fjölmörgum málum, bæði stórum og smáum. En hvað varð til þess að hún steig inn á væng stjórnmálanna í upphafi?
„Bara hrein tilviljun. Ég hafði aldrei verið skráð í neinn flokk eða tekið þátt í neinu flokkstarfi en ég er menntaður lögfræðingur með mikinn áhuga á pólitík og aldrei verið feimin við að hafa skoðanir og tjá þær svo það kom fólki í kringum mig ekkert mikið á óvart þegar þetta gerðist. Í aðdraganda kosninga 2018 var ég nýflutt heim eftir nám og var í fæðingarorlofi með mitt fyrsta barn. Þá var leitað til mín og spurt hvort ég hefði áhuga á að vera á framboðslista. Svo fór af stað atburðarás sem vatt fljótt upp á sig og 7 mánuðum eftir kosningar var ég orðin oddviti listans og aðalmaður í sveitarstjórn. Það var hressandi eldskírn en kannski ágætlega lýsandi fyrir mig þar sem ég er frekar mikil „all in“ týpa.“
Hvaða mál standa upp úr eða eru eftirminnilegust frá síðustu 7 árum í sveitarstjórn?
„Þau eru nú mörg eftirminnileg og af misjöfnum ástæðum. Það er tilhneiging að það fari mest fyrir neikvæðum málum í fjölmiðlum og þau fái mestu umræðuna en það hefur margt gott gerst á þessum 7 árum. Það sem ég er held ég stoltust af er samþættingarverkefnið svokallaða sem unnið er í samstarfi við íþróttafélagið Völsung, Borgarhólsskóla og Grænuvelli. Í stuttu máli snýst verkefnið um að öll börn á Húsavík á aldrinum 4-7 ára stundi skipulagt íþróttastarf á skólatíma endurgjaldslaust fyrir foreldra. Fjöldi æfinga og tegund íþrótta fer svo eftir aldri krakkanna. Ég veit ekki betur en að það sé einsdæmi á landinu að öll börn á þessum tiltekna aldri stundi endurgjaldslaust skipulagt íþróttastarf á vegum íþróttafélags á skólatíma og veit ég til þess að mörg sveitarfélög hafa mikinn áhuga á að taka upp sambærilegt fyrirkomulag. Ég hef nú þegar fengið beiðnir frá öðrum sveitarfélögum um að koma og kynna verkefnið okkar fyrir þeim. Nú hefur íþróttafélagið Þingeyingur í samstarfi við Öxarfjarðarskóla tekið upp að hluta verkefnið líka sem er frábært.
Auðvelt er að nefna líka einstaka nýframkvæmdir eins og nýtt húsnæði undir frístund- og félagsmiðstöð sem var erfið fæðing en mikilvæg framkvæmd. Bæjarbúar sjá nú glæsilega byggingu rísa við Borgarhólsskóla og mun vonandi þjónusta börnin okkar vel. Svo verð ég að nefna nýtt gervigras og stúku á knattspyrnuvöllinn á Húsavík en endurnýjun á grasinu var löngu tímabær. Af augljósum ástæðum eru það mál sem eru mér persónulega einkar hugleikin.
Ég er að sama skapi ánægð með að undir minni stjórn sem formaður byggðarráðs tókst okkur að halda þannig utan um fjármál sveitarfélagsins að við stóðumst öll viðmið og reglur sem sett hafa verið af ríkinu og oft gott betur en það. Sveitarfélagið einnig skilaði í fyrsta sinn hálfs árs uppgjöri sem ég tel mikilvægt tól í að greina fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og undirbúning fyrir fjárhagsáætlunarvinnu næstu ára. Ég væri ekki sjálfstæðismaður ef ég hefði ekki talað fyrir lækkun skatta og ég átti meðal annars frumkvæði af lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts svo að eitthvað sé nefnt.

Íþróttabakgrunnur sem nýtist í pólitík
Hvernig hefur reynsla þín úr íþróttum mótað þig sem stjórnanda og fulltrúa í sveitarstjórn?
„Frábær spurning og eitthvað sem ég hafði ekki pælt sérstaklega í. Íþróttir kenna manni svo margt annað en hreyfingu. Maður lærir aga, að takast á við áskoranir og liðsíþróttir auðvitað kenna manni að vera hluti af heild. Maður lærir að vinna með fólki og spila inn á styrkleika þess til að búa til sem bestu heildina. Í pólitík og liðsíþróttum eru samskipti lykilatriði. Fólk þarf alls ekki að vera sammála til að geta unnið saman en þetta snýst um að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og vinna af heilindum.
Það gilda að mörgu leyti sömu reglur í íþróttum og pólitík. Það er auðvelt að hafa gaman og vera með þegar vel gengur en þegar virkilega reynir á eru það sterkustu einstaklingarnir sem að stíga upp. Ekkert tímabil er komið til þess að vera og það eru hæðir og lægðir í öllu. Svo skemmir aldrei fyrir að hafa smá keppnisskap sem að ýtir undir metnað og að gera hluti vel.“
Hvaða lærdóm tekur þú með þér úr þessum störfum fyrir Norðurþing?
„Fyrst og síðast hefur þetta víkkað sjóndeildarhringinn. Sem framkvæmdastjóri Völsungs berð þú hagsmuni Völsungs fyrir brjósti, sem skólastjóri Öxarfjarðarskóla berð þú hagsmuni skólans fyrst og síðast o.s.frv. en sem kjörinn fulltrúi verður þú alltaf að horfa á heildarmyndina. Reyna að koma til móts við einhverja án þess að það sé á kostnað annarra. Heildarmyndin verður alltaf að vera bak við eyrað og fordæmisgildi ákvarðanna sem teknar eru.
Held að allir hafi gott af því einhvern tímann á lífsleiðinni að setjast í nefnd á vegum sveitarfélaganna og það er ýmislegt sem maður lærir á því. Það er mjög auðvelt að sitja í sófanum heima bakvið skjáinn eða á kaffistofunni og telja sig vita alltaf betur. Hvet það fólk til að bjóða sig fram og taka þátt í sveitarstjórnarmálum því mín reynsla er sú að allir eru að vinna að því sama markmiði að gera sveitarfélagið okkar enn betra.“
Aldrei að segja aldrei
Nú þegar þú hefur ákveðið að snúa ekki aftur fyrir lok kjörtímabilsins, hvað er næst á döfinni hjá þér?
„Ég er í mínu þriðja fæðingarorlofi og í fyrsta sinn ekki á leið í kosningabaráttu, það er góð tilfinning. Ég ætla að byrja á því að njóta jólanna með fjölskyldu og vinum. Svo klára ég fæðingarorlofið eftir áramót og byrja að vinna aftur í febrúar en þar fæ ég að fylgjast náið með pólitíkinni án þess að vera frambjóðandi svo það verður skemmtilegt nýtt hlutverk.
Ég ætla svo að njóta þess að vera „bara“ í hefðbundinni dagvinnu. Áður fór mesti tíminn utan hefðbundins vinnutíma í fótboltann og svo beint í pólitíkina sem maður hefur verið að sinna með sinni dagvinnu. Nú sé ég fram á að hafa meiri frítíma með börnum og eiginmanni sem er mjög kærkomið.
Svo er ég orðin miðaldra kona með mikla hlaupadellu svo ég sé fram á að gefa mér líka einhvern tíma í það enda hreyfing allra meina bót fyrir líkama og sál.“
Sérðu fyrir þér að snúa aftur í stjórnmálin?
„Pólitíska svarið er auðvitað „aldrei að segja aldrei“ en já ég sé það fyrir mér að snúa einhvern tímann aftur í stjórnmál. Eins og staðan er núna þá er ég mjög fegin að vera ekki á leið í framboð á þessum tímapunkti en áhugi minn á pólitík verður áfram til staðar.“


