Efla upplýsingaöryggi eldri borgara: „Afar ánægð með samstarf við Sparisjóðina“

Sparisjóðirnir og Símenntun Háskólans á Akureyri hafa tekið höndum saman um samfélagsverkefni sem miðar að því að efla upplýsingaöryggi eldri borgara. Boðið verður upp á aðgengilega fræðslu um helstu hættur á netinu og notkun snjalltækja, þar sem áhersla er lögð á að þekkja svik, verjast blekkingum og nota tæknina á öruggan hátt.

„Við viljum leggja okkar að mörkum í að styrkja og efla sjálfstæði og öryggi eldri borgara í stafrænum heimi. Ég hlakka mjög mikið til að hitta fólkið og ræða við það um þessi mál,“ segir Óli Birgir Birgisson verkefnastjóri hjá Sambandi íslenskra sparisjóða og umsjónaraðili fræðslunnar.

Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar HA, segir verkefnið falla vel að þeirri vegferð sem stofnunin er á í þessum málaflokki. „Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Sparisjóðina. Þetta viðfangsefni er okkur mjög hugleikið og höfum við einmitt verið að leiða erlent samstarfsverkefni um upplýsingaöryggi og notkun eldri borgara á netinu og snjalltækjum. Þessi fræðsla smellpassar við þá vegferð sem við erum í tengt þessum málum,“ segir segir Stefán.