Örþörungafyrirtækið MýSköpun ehf. hefur lokið 300 milljóna króna fjármögnun vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar örþörungaræktar við Þeistareyki. Nýr kjölfestufjárfestir félagsins er framtakssjóður inn Landvættir slhf í rekstri AxUM Verðbréfa á Akureyri.
Með aðkomu Landvætta verður félaginu kleift að ljúka hönnunarvinnu, skipulagsmálum og öðrum undirbúningi fyrir hátækniframleiðslueiningu sem rísa á við jarðvarmavirkjun Landsvirkjun á Þeistareykjum. Áætlað er að reisa allt að 10.000 fermetra framleiðsluhúsnæði og hefja framkvæmdir vorið 2027.
Afurðir MýSköpunar verða að mestu seldar á erlenda markaði, einkum til notkunar í fæðubótarefni, en markaður fyrir slíkar vörur hefur verið í örum vexti. Uppbyggingin er talin geta skapað tugi varanlegra starfa á Norðausturlandi þegar fram í sækir.
Dr. Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri MýSköpunar, segir að undirbúningur þessa áfanga hafi staðið yfir síðastliðið ár og að samstarfssamningur við Landsvirkjun hafi skipt sköpum. Með fjármögnuninni sé félagið í stakk búið til að hefja skipulagningu og hönnun framleiðslunnar af fullum krafti.
MýSköpun hefur starfað í Bjarnarflagi í Mývatnssveit frá árinu 2013 og sérhæfir sig í rannsóknum, ræktun og einangrun hagnýtra örþörunga. Fjárfesting Landvætta í félaginu er jafnframt fyrsta einstaka fjárfesting sjóðsins, sem leggur áherslu á nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun á landsbyggðinni.

