Þann 17. apríl árið 2008 varð Indriði Indriðason ættfræðingur og rithöfundur 100 ára. Af því tilefni tók Örlygur Hnefill meðfylgjandi viðtal og ljósmyndir sem birtust í Fréttablaðinu á aldar afmæli hans:
Indriði Indriðason, rithöfundur og ættfræðingur, fæddist að Ytra-Fjalli í Aðaldal 17. apríl 1908. Hann fagnar því hundrað ára afmæli sínu í dag. Indriði ólst upp á bænum Ytra-Fjalli til 16 ára aldurs þegar hann hélt með bróður sínum vestur til Ameríku.
„Það voru uppgangstímar og mikið að gera í Ameríku á þessum árum. Þegar ég kom aftur heim til Íslands var Jónas Jónsson, kenndur við Hriflu, að stjórna í landinu. Hann ákvað að taka jörðina Grenjaðarstað og skipta í fimm jarðir. Þá höfðu nýbýlalög nýlega tekið gildi og verið var að byggja upp býli um allt land. Jónas bauð mér einn partinn af Grenjaðarstað, ef mér þætti það ekki of lítið, enda stórhuga maður og nýkominn frá Ameríku. Þrándur bróðir minn fékk annan hluta og við byggðum upp jörð sem fékk nafnið Aðalból, enda samanstóð land okkar af tveimur fimmtu upphaflegu jarðarinnar.“
Indriði varði næstu árum í að byggja upp jörðina en segir vinnuna hafa verið erfiða og að hún hafi tekið sinn toll af heilsu hans. Hann flutti því til Reykjavíkur eftir nokkurra ára starf og bjó í höfuðborginni næstu sextíu árin.
Fljótlega eftir að Indriði kom suður lagði hann leið sína inn í bókabúð Sigfúsar Eymundssonar þar sem hann keypti stóran pakka af pappír. „Ég hugsaði að það væri best að fara að skrifa, úr því að ég hafði ekkert að gera. Ég settist niður og skrifaði í eina viku. Þetta voru sjö smásögur sem ég labbaði með í prentsmiðju Guðbjarnar Guðmundssonar. Ég fékk honum böggulinn og sagði honum að ég vildi að hann gæfi þetta út. Tveimur dögum seinna fór ég aftur í prentsmiðjuna og hitti Guðbjörn. Hann sagði að það væri réttast að gefa skrif mín út. Þetta var fyrsta skrift, beint úr pennanum hjá mér og nokkrum dögum síðar var búið að prenta bókina. Svona myndi seint gerast nú á dögum,“ segir Indriði.
Hann segir fjölskyldu sína hafa orðið hissa þegar hann sendi þeim eintak af fyrstu bók sinni, enda var hann þá bara nýfluttur suður. Eftir þetta hefur Indriði mikið fengist við skriftir og liggja eftir hann mörg rit, bæði bókmenntir og fræðirit.
Indriði hefur lengi haft áhuga á ættfræði og hefur meðal annars tekið saman bækur um ættir Þingeyinga, fimmtán bindi alls. „Við erum fámenn þjóð og lengi vel einangruð og það tel ég ástæðu hins mikla ættfræðiáhuga hér á landi,“ segir Indriði, sem er einn eftirlifandi af níu systkina hópi sem komst á legg.
Indriði er mikill grúskari og hefur safnað að sér bókum frá unga aldri. „Það hafa alltaf safnast að mér bækur. Fyrir þremur árum seldi ég allar bækurnar mínar. Ég stóð í herberginu mínu með auða skápa og hugsaði að nú væri ekkert eftir nema að selja skápana, en einhvern veginn hafa þeir fyllst aftur.“
Þrátt fyrir háan aldur fylgist Indriði ennþá vel með fréttum og dægurmálum. Indriði tekur á móti vinum og vandamönnum í Dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík í dag.


