Það er löng helgi hjá nemendum Borgarhólsskóla, en kennarar og starfsfólk skólans og frístundar nýttu starfsdaginn í dag vel og kynntu sér ýmsa nýja möguleika í STEM kennslu, í samstarfi við STEM Húsavík. Huld Hafliðadóttir hjá STEM Húsavík segir daginn hafa verið afar vel heppnaðan.
„Dagurinn var frábær og mjög viðburðarríkur. Það var gaman að hitta kennara eftir kennarafund, þar sem ég kynnti og minnti á Tækjasafn STEM Húsavík. Safnið var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum sem stuðningur við kennara og nú höfum við bætt við nýju námsefni sem fylgir tækjunum. Það auðveldar notkun þeirra og býður upp á skýran ramma sem tengist STEM námi.“
Eftir hádegi var haldin vinnustofa fyrir starfsfólk Frístundar, sem hyggst taka upp skipulagðar STEM stundir fyrir nemendur, einu sinni til tvisvar í viku. Þar verða tækin í tækjasafninu og nýja námsefnið notuð markvisst til að byggja upp skapandi og lærdómsríkt starf.
„Með þessu má segja að við höfum náð að tengja alla hagaðila í STEM Learning Ecosystems-líkaninu í samfélaginu,“ segir Hulda. „Síðasti hlekkurinn var í raun Frístund, og nú er sú tenging komin á.“
Dagurinn endaði á vinnustofu sem hluti af verkefninu From Words to Wonder, samstarfsverkefni Móðurmál Norðurland og STEM Húsavíkur. Verkefnið er styrkt af Íslenskusjóði Háskóla Íslands og Norðurþingi og miðar að því að efla íslenskukunnáttu tvítyngdra barna og fjölskyldna með því að nýta hagnýt, „hands-on“ STEM-verkefni.
Á næstu vikum og mánuðum hyggst STEM Húsavík bjóða upp á fjölbreytta og fjöltyngda fjölskylduviðburði með áherslu á tækni, vísindi, verkfræði og stærðfræði. Nánari kynning á þeim verður auglýst síðar.

