Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hitti Lampros Papadopoulos var hversu vel hann hlustar. Hann nálgast fólk af einlægum áhuga og leitar jafnan að sögunum sem búa undir yfirborðinu. Sú virðing sem hann sýnir öðrum virðist líka endurgoldin, enda hefur hann á skömmum tíma eignast marga vini á Húsavík, þar sem margir þekkja hann úr Sundlaug Húsavíkur. En bak við glerið í miðasölunni leynist djúpur og skapandi einstaklingur með sterka listræna sýn, sem sækir innblástur í daglegt líf, fjöllin í kringum bæinn og síbreytilegan himininn. Í sunnudagsviðtalinu ræðir Örlygur Hnefill við Lampros um lífið á Húsavík, listina og tengslin sem móta manninn.
Lampros ólst upp í Patras, þriðju stærstu borg Grikklands, í verkamannahverfi rétt utan miðborgarinnar. „Borgin er mjög fjölbreytt menningarlega,“ segir hann. „Áhrif frá Ítalíu, Tyrklandi, Spáni og víðar, það sést í matnum, fólkinu, arkitektúrnum.“ Teikning var snemma hluti af lífi hans. Kennari í grunnskóla sá hæfileikana og sagði honum að ef hann vildi gera það sem hann dreymdi um, þyrfti hann líklega að horfa út fyrir Grikkland. „Þessi hugmynd sat í mér mjög lengi,“ segir Lampros. „Ekki endilega að flytja til að vinna – heldur að víkka sjóndeildarhringinn.“
Áður en hann kom til Íslands hafði Lampros búið í nokkrum löndum. Hann gegndi herskyldu í Kýpur, lærði myndlist og myndskreytingu í Bretlandi og starfaði um tíma við sjálfstæð verkefni, meðal annars í fantasíu- og vísindaskáldskap. Hann gaf einnig út lítið tímarit með vinum sínum í Grikklandi.

Fann sér stað í sundlauginni
Í dag vinnur Lampros í Sundlaug Húsavíkur og þar hefur hann fundið sér stað og tilgang. Flests börn bæjarins þekkja Lampros í sundlauginni af góðmennsku hans og nærgætni, og hann gerir sér far um að þekkja þau með nafni. Fyrir hann snýst starfið ekki um að stjórna, heldur að vera til staðar, með ró, virðingu og góðu fordæmi. „Ef ég get haft jákvæð áhrif á krakka, jafnvel bara smá, þá finnst mér ég vera að gera eitthvað rétt,“ segir hann.
Eftir vinnu í sundlauginni hefst hin vinnan, hans ástríða, sem eru sögur og persónusköpun. Lampros sem er fjölhæfur listamaður vinnur að persónuhönnun, teiknar kort, söguborð og myndasögur. „Kjarni alls sem ég geri eru sögur,“ segir Lampros. „Goðafræði, hvort sem það er grísk, norræn, eða egypsk, hefur alltaf heillað mig.“ Hann segir að sögurnar og myndirnar séu litaðar sterkum litum. Blaðamaður spyr hvernig hafi verið að koma úr litríku umhverfinu við miðjarðarhaf í föla liti íslensku náttúrunnar, en Lampros er fljótur að svara: „Ef landið virðist grátt, þá er nóg að horfa til himins. Hann er eins og nýr strigi á hverjum degi.“
Grikkland og Ísland eiga margt sameiginlegt
Lampros lýsir sér sem „fjallabarni“ og segir kuldann og náttúruna henta sér vel. „Ég elska veturinn,“ segir hann og brosir. „Og hver árstíð kemur með eitthvað nýtt.“ En þó Lampros hafi valið sér heimili langt frá sínum fæðingarstað þá sér hann bæði rík líkindi, sem og mun, á samfélögunum sem hann hefur kallað sitt heimili. „Landsbyggðirnar eru er mjög svipaðar á Íslandi og í Grikklandi. Fólk er fjölskyldumiðað, með sterkar rætur,“ segir hann. Mesti munurinn liggi í samskiptum. „Grikkir eru beinskeyttir, jafnvel hrjúfir. Íslendingar eru varfærnari með orð sín.“ Hvorugt sé betra en hitt, lykillinn sé virðing og hreinskilni. „Ef eitthvað angrar þig, þá er betra að tala um það,“ segir hann.
Að finna jafnvægi
Lampros telur að jafnvægi í lífinu snúist ekki bara um tíma, heldur orku. Hann skilur vinnuna eftir í vinnunni og nýtir orkuna í list, áhugamál og nýja hluti: bogfimi, sverðfimi, júdó, snjóbretti, fjallahjólreiðar og hestamennsku. „Ég lærði að ríða á hesti í sumar, Ísland er alltaf að kenna mér eitthvað nýtt,“ segir hann hlæjandi. Þessi stöðugleiki í bland við nýjar upplifanir hafa styrkt sjálfsmynd hans. „Ég áttaði mig á því að ég hef eitthvað að gefa,“ segir hann. „Að ég skipti máli í samfélaginu.“
Rætur á Húsavík
Spurður hvort hann sjái sig búa lengi á Húsavík svarar hann með hálfkæringi: „Spurðu mig aftur eftir tvö ár.“ En bætir við að það hafi verið svarið lengi og ekki breyst. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Hann segir það sem vegi þyngst séu tengslin. „Fólkið,“ segir hann án þess að hika. „Vinirnir sem ég hef eignast hér eru mér ómetanlegir.“ Að byrja aftur frá grunni annars staðar finnst honum orðið þreytandi. „Við 37 ára aldur er gott að hafa rætur.“ Og á Húsavík virðast þær rætur hafa fest sig, í fólki, sögum og hversdagslegum hlutum hins daglega líf í sundlauginni.


