Á vef Borgarhólsskóla er sagt frá skemmtilegri heimsókn nemenda í 7. bekk í Þeistareykjarstöð nú í vikunni.
„Viðfangsefni nemenda í náttúrugreinum um þessar mundir eru orka, orkugjafar og auðlindir. En Þeistareykjastöð var fyrsta jarðvarmavirkjunin sem Landsvirkjun reisti frá grunni. Heimsóknin er liður í verkefni Landsvirkjunar sem kallast Nám í nærsamfélag en Landsvirkjun kostaði heimsókn nemenda,“ segir á vef skólans.
Þeistareykjarstöð var tekin í notkun 17. nóvember 2017 þegar fyrri vélasamstæða stöðvarinnar, sem er 45 megavött, var gangsett. Seinni samstæðan var ræst 18. apríl árið eftir. Uppsett afl stöðvarinnar er alls 90 megavött og árleg framleiðslugeta nemur um 740 gígavattstundum. Við uppbyggingu stöðvarinnar var lögð áhersla á að reisa hagkvæma og áreiðanlega virkjun sem fellur vel að umhverfi og náttúru svæðisins.
Hildur Vésteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, tók á móti nemendahópnum, fór yfir öryggisreglur og kynnti nemendum starfsemi virkjana Landsvirkjunar. Nemendur fengu fræðslu um gufuaflsvirkjanir, skoðuðu stöðina sjálfa og fylgdust með því hvernig gufan fer í gegnum ferla stöðvarinnar. Þá var einnig farið að borholum þar sem nemendur fengu að upplifa orkuna í holunum.
Heimsóknin heppnaðist afar vel og sýndu nemendur bæði stöðinni og efninu mikinn áhuga, að því er fram kemur á vef skólans og þakka skólastjórnendur Landsvirkjun kærlega fyrir einstaklega gott boð og ánægjulega heimsókn.

