Kaldbakur og KEA hafa gert samkomulag um stofnun nýs framtakssjóðs, Landvættir, sem verður starfræktur hjá AxUM Verðbréf. Sjóðurinn mun fjárfesta í innlendum nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækjum, með sérstaka áherslu á starfsemi á landsbyggðinni.
Í upphafi munu Kaldbakur og KEA eiga jafnan hlut í sjóðnum. Stefna Landvætta er langtímafjárfestingar, allt að 10 ára líftíma, án bindingar við tilteknar atvinnugreinar. Fyrstu fjárfestingar liggja þegar fyrir, meðal annars með yfirtöku eignasafns Upphafs fjárfestingarsjóðs, og tilkynnt verður um nýjar fjárfestingar á næstu dögum, að því er fram kemur í tilkynningu frá hinum nýja sjóði.
Á næstu mánuðum verður unnið að því að fá fleiri fagfjárfesta til liðs við sjóðinn með það markmið að efla fjárfestingar í metnaðarfullum nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni.

