Sjókvíaeldi hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og í vikunni var fjallað um nýtt frumvarp sem ætlað er að minnka siglingahættu vegna laxeldis. Með frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að fyrirtæki geti sett upp gild siglingamerki, lagt til breytingar á þeim og jafnvel komið í stað hefðbundinna vita með öðrum leiðarmerkjum, að fengnu samþykki Vegagerðarinnar.
Í frumvarpinu er einnig fjallað um strandsvæðaskipulag þar sem gera á ráð fyrir helgun siglingaleiða í samráði við Vegagerðina, Samgöngustofu og Landhelgisgæsluna. Þá er kveðið á um lagastoð fyrir áhættumat siglinga og heimildir Vegagerðarinnar til að leiðbeina eldisfyrirtækjum á meðan slíkt mat er í vinnslu.
Ákvæði frumvarpsins hafa vakið athygli, ekki síst í tengslum við fyrirhuguð sjókvíaeldissvæði á Austfjörðum og Vestfjörðum, þar sem hluti eldissvæða skarast við siglingaleiðir skipa. Í Seyðisfirði hefur verið deilt um hvort vírar og botnfestingar sjókvía megi liggja undir ljósgeira frá Brimnesvita, en frumvarpið myndi hafa í för með sér að slíkt geti verið heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
„Ákvarðanir stjórnvalda undarlegar“
Árni Pétur Hilmarsson, safnstjóri á Húsavík, fulltrúi í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og þekktur laxveiðimaður, hefur gagnrýnt frumvarpið harðlega. „Eins og allt í kringum opið sjókvíaeldi þá eru allar ákvarðanir stjórnvalda undarlegar,“ segir Árni í samtali við Húsavík.com. Hann bendir á að andstaða við sjókvíaeldi sé mjög mikil, bæði á landsvísu og sérstaklega mikil á þeim svæðum sem um ræðir.
„Á Seyðisfirði eru 74 prósent íbúa á móti því að fá þetta í fjörðinn sinn. Það er heldur meiri andstaða en á landsvísu, en tæp 70 prósent þjóðarinnar er á móti þessum sóðaiðnaði,“ segir Árni Pétur.
Siglingaleiðir og netöryggi
Að sögn Árna töldu íbúar og andstæðingar sjókvíaeldis sig hafa sterk rök gegn fyrirhuguðu eldi í Seyðisfirði. Hann nefnir sérstaklega að eldissvæðin gangi inn á siglingaleiðir skipa og farþegaferju, inn á helgunarsvæði sæstrengsins FARICE og inn á ljósgeira Brimnesvita.
„Þarna er verið að skapa raunverulega hættu, ekki bara fyrir siglingar heldur einnig fyrir netöryggi Færeyja og Íslands,“ segir Árni. Hann bætir við að ofanflóð séu einnig raunveruleg ógn á svæðinu.
„Pressa og spilling virðast öllu ráða“
Árni gagnrýnir jafnframt stjórnvöld og stofnanir harðlega og segir þær ganga erinda fiskeldisiðnaðarins. „Það er eins og ríkisstofnanir, Matvælastofnun, Skipulagsstofnun, Vegagerðin, Alþingi og Samgöngustofa, leggjist þarna á sveif með iðnaði sem enginn vill,“ segir hann.
Hann bendir á dæmi um tengsl stjórnmála og hagsmunaaðila og nefnir sérstaklega að fyrrverandi forseti Alþingis hafi tekið við formennsku í landsambandi fiskeldisstöðva. „Þarna er maður með yfirburðaþekkingu á stjórnsýslukerfinu sem fer beint í að gæta hagsmuna mengandi iðnaðar,“ segir Árni í samtali við Húsavík.com.
Árekstur við alþjóðlegar skuldbindingar
Að lokum bendir Árni á að þróunin gangi þvert gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. „Á sama tíma undirrita stjórnvöld samninga við Sameinuðu þjóðirnar um að skuldbinda okkur til að verja líffræðilegan fjölbreytileika,“ segir hann og spyr hvernig slíkt samrýmist auknum heimildum til sjókvíaeldis í viðkvæmum fjörðum landsins.

