Þrátt fyrir mikinn bruna í iðnaðarhúsnæði Garðvíkur við Haukamýri í gærmorgun heldur fyrirtækið starfsemi sinni áfram af fullum krafti í dag. Guðmundur Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Garðvíkur, segir að unnið hafi verið sleitulaust í allan gærdag til að tryggja að verkefni fyrirtækisins gætu haldið áfram án tafar. „Við unnum í allan gærdag til að starfsemi Garðvíkur gæti haldið áfram strax í dag,“ segir Guðmundur í samtali við Húsavík.com.
Strax í morgunsárið hélt fyrirtækið af stað í hellulögn í Mývatnssveit. „Við erum að fara í hellulögn í Mývatnssveit núna upp á morguninn, sem er í sjálfu sér frekar óvenjulegt á þessum tíma árs, í 330 metra hæð yfir sjávarmáli í janúarmánuði,“ segir hann. Það er því engan bilbug að finna á Guðmundi og hans öfluga starfsfólki. Á meðfylgjandi mynd má sjá tvo harða, þá Guðmund Vilhjálmsson og James Bond.
Bruninn olli miklu tjóni á húsnæðinu og er talið að um altjón sé að ræða. Að sögn Guðmundar er húsið ekki stöðugt og þakið mjög veikt, sem þýðir að ekki hefur enn verið hægt að kanna eldsupptök að fullu.
Viðbrögð samfélagsins hafa þó verið afar hlý. Guðmundur segir fjölda aðila hafa haft samband og boðið fram aðstoð í kjölfar brunans.
„Ég er búinn að fá fjölda skilaboða í gær og í dag þar sem fólk býðst til að lána okkur búnað svo við getum haldið áfram, jarðvegsþjöppur, búnað til hellulagna, skotbómulyftara og fleira. Við finnum mikinn hlýhug frá samfélaginu og samstarfsfyrirtækjum okkar,“ segir hann.
Í gær var jafnframt unnið að því að koma bílum fyrirtækisins á númer í stað þeirra sem skemmdust í eldinum, svo starfsemin gæti haldið áfram með sem minnstum truflunum.

