Við sveitarstjórnarkosningar þann 16. maí verður breyting á skipan sveitarstjórnar í Þingeyjarsveit, en Innviðaráðuneytið hefur samþykkt erindi sveitarfélagsins um að fækka kjörnum fulltrúum úr níu í sjö á næsta kjörtímabili.
Fjölgun fulltrúa úr sjö í níu var veitt sem tímabundin undanþága í kjölfar sameiningar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar árið 2022. Undanþágan var þá veitt til ársins 2030 en samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í apríl 2024 að óska eftir því að fækka aftur í sjö fulltrúa. „Þetta var undanþága sem við töldum mikilvæga með stækkun sveitarfélagsins,“ segir Gerður Sigtryggsdóttir sveitarstjóri í samtali við Húsavík.com, en árið 2022 sameinuðust Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur. Gerður segir stjórnsýslu og stefnu hins sameinaða sveitarfélags nú vera komna í fastar skorður og rökrétt að fækka fulltrúum til samræmis við það sem gengur og gerist í sveitarfélögum svipaðrar stærðar. Arnór Benónýsson, fulltrúi K-lista, segir algjöra samstöðu hafa ríkt um fækkun fulltrúa í sveitarstjórn.
Minnst fimm fulltrúar hætta í vor
Gerður hyggst sjálf ekki gefa kost á sér í kosningunum í vor og sama á við um minnst fjóra aðra fulltrúa. Arnór staðfesti einnig í samtali við vefinn að hann hyggist segja skilið við stjórnmálin í vor.
Árni Pétur Hilmarsson staðfesti í samtali við Húsavík.com að hann stefni ekki á áframhaldandi setu. „Ég stefni ekki að því að fara fram núna, ég er búinn að vera lengi þarna, líklega 4 og hálft kjörtímabil,“ segir Árni Pétur sem er fulltrúi af K-lista.
Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir mun sömuleiðis stíga til hliðar, fyrst og fremst vegna mikilla anna í starfi sínu sem mannauðs- og markaðsstjóri Jarðbaðanna í Mývatnssveit, þar sem umfangsmiklar framkvæmdir standa nú yfir. „Ég ætla að láta staðar numið núna, það er mikið að gera í vinnu og erfitt að sinna fullri vinnu og starfi í sveitarstjórn saman því maður vill sinna hvoru tveggja af fullum heilindum,“ segir Ragnhildur. „Jarðböðin eru lokuð núna, þar til við opnum nýja og glæsilega byggingu í vor og því fylgir mikil vinna næstu vikur og mánuði.“
Eyþór Kári Ingólfsson af E-lista reiknar með því að sækjast eftir áframhaldandi setu í sveitarstjórn og Halldór Þorlákur Sigurðsson, einnig af E lista, er að meta stöðuna. Haraldur Bóasson sem sat áður tvö kjörtímabil í sveitarstjórn fyrir sameiningu og kom svo inn í sveitarstjórn sem varamaður í upphafi þessa kjörtímabils hyggst láta staðar numið nú.
Jóna Björg Hlöðversdóttir af K-lista gaf ekki kost á viðtali þegar Húsavík.com leitaði upplýsingum frá frambjóðendum í gær.
Í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2022 hlaut E-listi 55 prósent atkvæða en K-listi 45 prósent. Það er því ljóst að umtalsverð endurnýjun verður í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar eftir kosningarnar í vor.

