Ekki eðlilegar aðstæður fyrir hótelrekstur í sumar

Á Húsavík er starfrækt eitt hótel, Hótel Húsavík. Byrjað var á byggingu hússins, sem er sambyggt félagsheimilinu, árið 1967 og var það tekið í notkun sumarið 1973. Byggingarkostnaður hússins var 75 milljónir, og enn á eftir að ganga frá lóð og bílastæði og er áætlað að kostnaður við þær framkvæmdir verði í kringum 35 milljónir króna. Í hótelinu eru 34 tveggja manna herbergi, og 24 þeirra eru með baði.

Í sumar starfaði um 20 manns við hótelið en á veturna eru aðeins 8 starfsmenn. Þá byggist starfsemin aðallega á veitingasölu fyrir árshátíðir og aðrar samkomur, sem haldnar eru í félagsheimilinu. Aðaleigandi hótelsins er Húsavíkurbær, en aðrir eigendur eru Kaupfélag Þingeyinga, félagsheimilið, Sigtryggur Albertsson, sem jafnframt er hótelstjóri, og fleiri minni hluthafar.

Sigtryggur hefur mikla reynslu í hótelrekstri, því í 13 ár hefur hann starfað sem hótelstjóri; fyrst stýrði hann gamla hótelinu á Húsavík, sem brann, og síðan því nýja.

„Við álitum að það væri grundvöllur fyrir rekstri á stóru hóteli í Húsavík, miðað við eðlilegar aðstæður, en þær hafa ekki verið fyrir hendi í sumar. Útlendir ferðamannahópar hafa brugðist og ein ferðaskrifstofa afpantaði gistingu og mat fyrir 16 hópa. Þessi afpöntun var mikið fjárhagslegt áfall fyrir hótelið. Hvað viðkemur íslenzkum ferðamönnum, þá hafa þeir flestir meðferðis tjöld eða hjólhýsi á ferðalögum sínum um landið, því þeir hafa einfaldlega ekki efni á því að búa á hótelum. Þó búið sé að lækka matinn svolítið í verði, er hann enn dýr, sérstaklega fyrir útlent ferðafólk, og það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að niðurgreiða matinn mikið.“

Greiða hærri laun
„Einnig gerir okkur erfitt fyrir, að við fáum ekki að greiða starfsfólki sömu laun og gert er á höfuðborgarsvæðinu. Alþýðusamband Norðurlands skarst þar í leikinn og við greiðum mánaðarlega 5000 krónum hærri laun á hvern starfsmann að meðaltali, en gert er fyrir sunnan. Starfsmenn boðuðu verkfall og við urðum að semja um þessa hækkun. Í vinnulaun í sumar hefur verið greitt 12–1400 þús. krónur á mánuði.

Það er ekkert leyndarmál að afkoman í ár verður mjög slæm, og óhjákvæmilegt er að halli verði á rekstrinum. Að vísu var alltaf gert ráð fyrir, að reksturinn yrði erfiður fyrstu árin, en ekki svo að borga þyrfti með hótelinu. Þrátt fyrir slæma afkomu geri ég ráð fyrir, að rekstrinum verði haldið áfram, vegna þess að varla verður hjá því komizt að starfrækja hótel á svona stórum stað.“

Léleg herbergjanýting
„Í vetur var herbergjanýting frá 10% upp í 30% og sýnir það, að lítill grundvöllur er til að starfrækja hótel hér á veturna. Í júlí var hún 63%, eða 30% of lítil og í ágúst var nýtingin enn lélegri. Það er erfitt að sætta sig við þetta, því Húsavík er miðr svæðis í fallegu héraði, og örugglega vel í sveit sett, sem ferðamannabær.

Það, sem dregur ferðamenn frá okkur, eru skólar hér í kring, sem eru reknir sem hótel á sumrin. Ferðaskrifstofurnar notfæra sér þessa skóla, því þeir eru ódýrari, og þó búið sé að semja um ákveðið verð á herbergjum á vorin, er ljóst að skólarnir undirbjóða þegar líður á sumarið.

Afkoman byggist á erlendum ferðamönnum. Mikill ókostur er líka fyrir okkur, að hér skuli ekki vera starfræktur bar. Það virðist ekki vera áhugi fyrir því hjá bæjarstjórn, en ég hefði talið það mikla fjárhagslega aðstoð við reksturinn. Ekki væri nauðsynlegt að hafa opinn bar alla daga, heldur að geta aðeins veitt þessa þjónustu á hentugum tímum. Við getum að vísu fengið vínveitingaleyfi fyrir ráðstefnur, sem hér eru haldnar, en það er ekki nægilegt.

Ef við víkjum aftur að hótelrekstrinum á veturna, þá höfum við hér mjög góða aðstöðu fyrir ráðstefnur og fundi, og við ætlum að gera okkar bezta til að ná slíkum samkomum hingað.

Að lokum vil ég segja, að eins og öllum verðlagsmálum er háttað nú á tímum, byggist öll afkoman á erlendum ferðamönnum og við vonum að nýja ríkisstjórnin komi málum þannig fyrir, að hægt verði að bjóða upp á sæmileg kjör í þessari þjónustugrein,“ sagði Sigtryggur hótelstjóri að lokum.