Húsvísk fjölmiðlun: Rekur sjónvarpsstöð og gefur út Víkurblaðið

Húsvísk fjölmiðlun hf. nefnist fyrirtæki sem stofnað hefur verið á Húsavík og mun hefja starfsemi með útgáfu Víkurblaðsins eftir áramótin. Um páska er síðan fyrirhugað að senda út sjónvarpsefni þráðlaust á nokkrum rásum, og geta notendur þá horft á fleiri en eina stöð í sjónvarpstækjum húss síns um tilheyrandi afruglara. Hugmyndir eru um sjónvarpssendingar á húsvísku efni, t.d. auglýsingum, bæjarstjórnarfundum, útileikjum íþróttaliða sem fara til keppni utanbæjar og fleiru. Ekki er mótuð stefna varðandi ýmislegt sem til greina kemur, t.d. útvarpsrekstur eða móðurstöð í sambandi við Internetið.

„Við erum að skoða allt,“ segir Jón Hermann Óskarsson, sem er stjórnarformaður fyrirtækisins og einn níu aðila sem samtals leggja fram níu milljóna króna hlutafé. Átta eigendanna eru á Húsavík en einn í Reykjavík. Í stjórn eru auk Jóns Hermanns: Friðrik Sigurðsson, Jóhann Bjarni Einarsson, Ingimar Eydal Óskarsson og Ómar Guðmundsson, frá Elneti í Kópavogi.

„Við erum nýi útgáfu- og rekstraraðilinn á Víkurblaðinu og þar verður fyrst vart við okkur. Fyrsta blaðið á nýju ári verður gefið út undir merki félagsins en við höfum ráðið Jóhannes Sigurjónsson sem starfsmann og ritstjóra. Nú sjáum við um reksturinn og hlutverk hans verður að skrifa blaðið og hann ætlar að auka vægi hins ritaða hluta þess. Við ætlum ekki að kollvarpa blaðinu, en munum byrja á óbreyttu,“ sagði Jón Hermann.

Hann sagði að unnið hafi verið að fjölvarpinu og stefnan sé að þráðlausar gerfihnattasendingar verði hafnar um páskana. Þá þurfi menn að greiða inntökugjald og fá afruglara sömu tegundar og Stöð 3, þannig að menn geti horft á hvaða rás sem þeir vilji í hvaða tæki heimilisins sem þeir vilji, en það þurfi ekki allir á heimilinu að horfa á sömu rásina.

„Við stefnum að því að vera með fjölbreytt efni, einar fimm rásir til að byrja með. T.d. NBC Super Channel, EURO Sport og líka MTV, Evrópuútgáfuna, Discovery og rásir með sígildum kvikmyndum. Ég nefni þetta sem dæmi um fjölbreytni, þó það verði kannski ekki nákvæmlega allar þessar stöðvar sem við verðum með. Efnið verður ekki textað, það er sent út allan sólarhringinn og þetta er nánast eins og fólk sé með disk heima hjá sér,“ sagði Jón Hermann.

„Þessu til viðbótar ætlum við að vera með staðarrás, sem er enn nánast eins og óskrifað blað. En í staðarsjónvarpi á öðrum stöðum á landinu eru menn með skjáauglýsingar, allt frá því að auglýsa ferðáætlanir til þess að auglýsa eftir barnapíum um kvöldið. Okkar metnaður er að þetta verði gott og vonandi boðið upp á eitthvað sem menn fá ekki annars staðar. Við munum geta leyst tæknilega erfiðleika við að sjónvarpa frá bæjarstjórnarfundum. Við gætum sýnt knattspyrnuleiki frá útileikjum heimaliðsins eða annað sérstakt sem um væri að vera. Þetta er ekki fastmótað en býður upp á ýmsa möguleika.

Með góða og skemmtilega heimarás óttumst við ekki samkeppni annars staðar frá, því það er það sem skemmtilegast þykir á öðrum stöðvum, að sjá myndir héðan og þegar von er á þeim tæmist bærinn,“ sagði Jón Hermann.

Jón Hermann sagði að menn væru bjartsýnir þó um talsverða fjárfestingu væri að ræða. Stofnkostnaður væri um 15 milljónir en eigið fé um 60%. Fyrirtækið verður til húsa að Héðinsbraut 1, á efri hæð, en Tölvuþjónusta Húsavíkur hefur þegar flutt á neðri hæðina og húsið verið keypt fyrir þessa starfsemi. -IM