Mjólkursamlag KÞ verður 50 ára á þessu ári en samlagið tók til starfa árið 1947. Og segja má að samlagið hafi fengið góða afmælisgjöf á aðalfundi þess s.l. föstudag, í formi reikninganna. Hagnaður varð af rekstrinum upp á rúmar 15 milljónir og er sennilega besta útkoma á rekstri MSKÞ frá upphafi.
Enda var samþykkt á aðalfundi KÞ s.l. sunnudag að greiða mjólkurframleiðendum uppbót sem nemur 65 aurum á lítra, eða alls um 4 milljónum. Á aðalfundi KÞ var einnig samþykkt tillaga frá Ólöfu Hallgrímsdóttur þess efnis að stjórn KÞ beiti sér fyrir því að KÞ verði fyrst fyrirtækja til að greiða bændum sem framleiða úrvalsmjólk hærra verð fyrir hana.
Á aðalfundi MSKÞ voru alls 31 framleiðandi verðlaunaður fyrir framleiðslu á úrvalsmjólk. Og bændur á félagssvæðinu eru í fremstu röð á þessu sviði, meðalnyt í kúm mjög há og helmingi hærri en landsmeðaltal og frumutala í mjólk hjá MSKÞ sú lægsta á landinu.
Þrátt fyrir góða stöðu samlagsins, hágæðaframleiðslu og hagræðingu í greininni, þar sem fórnarkostnaður bænda hefur verið mikill, þá fer afkoma mjólkurframleiðenda versnandi sem um leið ógnar rekstri mjólkurbúa, að sögn Ara Teitssonar, formanns Bændasamtakanna. Hann benti og á að áfram yrði þrýst á um verðlækkun mjólkurvara, m.a. með tilvísun til innflutnings á mjólkurafurðum.