Glöggt er gests augað, eins og þar stendur. Og ágætur gestur sem kom til Húsavíkur í fyrsta skipti á dögunum og var her lítt kunnugur, komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað bæinn, að máttarstólpar atvinnulífsins í bænum væru tveir, annars vegar Kaupfélag Þingeyinga og hins vegar Víkurblaðið.
Engum kemur á óvart þó gesturinn hafi ályktað svo um KÞ, en hversvegna í ósköpunum Víkurblaðið? Jú, á ferðum sínum um bæinn sá hann að Víkurblaðið virtist vera eina fyrirtækið ásamt KÞ sem er með sérstakar höfuðstöðvar og að auki útibú eða einstakar deildir vítt og breitt um bæinn.
Á húsinu að Garðarsbraut 7 er skilti með nafni Víkurblaðsins og ekki annað að sjá en blaðið gefi einnig út Dag-Tímann á sama stað. Annað Víkurblaðsskilti er yfir dyrunum á Héðinsbraut 1, og þar virðist blaðið standa fyrir rekstri á fyrirtækinu Húsvískri fjölmiðlun hf. og þar með vera í sjónvarpsrekstri. Og þriðja útibú þessa mikla fjölmiðlarisa á Húsavík er í Snælandi, en þar uppi á vegg trónir enn eitt Víkurblaðsskiltið.
Jafnvel Mogginn í Reykjavík er ekki með jafn margar bækistöðvar þar og Víkurblaðið er með á Húsavík.