Lögreglan á Húsavík þurfti að hafa afskipti af nokkrum slysum í bænum um helgina. Veita þurfti aðstoð þegar fótgangandi vegfarandi datt fyrir utan hús og handarbrotnaði. Þá hlaut unglingur töluverð meiðsl í slysi á léttu bifhjóli og leikur grunur á réttindaleysi við aksturinn. Ökumaður varð fyrir minniháttar meiðslum er hann ók bíl sínum á grindverk og er grunur um ölvun við akstur í því tilviki.
Fimm voru teknir fyrir að aka á ólöglegum hraða í bænum, tveir þeirra fyrir vítaverðan kappakstur. Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögregluþjónn, sagði að vegfarandi sem þurfti að forða sér undan þessum pinnaglöðu ökumönnum hefði látið vita og hvatti Sigurður þá sem verða vitni að ofsakstri að láta lögreglu vita og aðstoða þannig við að stemma stigu við svoddan stórhættulegu háttalagi.