Foreldrafélag Borgarhólsskóla stóð fyrir fjölskyldudegi s.l. laugardag við skólann og bæjarbúar á öllum aldri mættu til leiks. Hægt var að fara í hjólabrautir, húlla, andlitsmálun, fótbolta, teygjutvist og fleira skemmtilegt.
Kiwanismenn voru á staðnum og héldu sínum góða sið að færa nemendum 1. bekkjar að gjöf reiðhjólahjálma og reiðhjólaveifur. Alls fengu 60 börn hjálma að þessu sinni og ljóst að árgangar á Húsavík fara stækkandi.
Lögreglan var á staðnum og fræddi börnin um nauðsyn hjálmanotkunar á reiðhjólum. Þetta var gert börnunum auðskilið þegar lögregluþjónninn setti egg í lítinn hjálm og lét detta á malbikið – og eggið var með öllu óbrotið eftir. En þegar óvarið eggið féll í stéttina mölbrotnar það. Þessi einfalda sýnikennsla sagði meira en mörg orð og krakkarnir 60 eiga örugglega allir eftir að nota hjálmana sína í hvert skipti sem þeir fara út að hjóla.