Bæjarstjórn Húsavíkur hefur samþykkt verkáætlun um lokavinnu við ritun Sögu Húsavíkur. Stefnt er að því að verkinu ljúki árið 2000.
Bæjarstjórn Húsavíkur hefur samþykkt að láta halda áfram að rita Sögu Húsavíkur og gerður hefur verið nákvæmur verksamningur við Sæmund Rögnvaldsson sagnfræðing um framhaldið. Ennfremur hefur verið gerður samningur við Sigurjón Jóhannesson um söfnun og val mynda og ritun myndtexta í þrjú fyrirhuguð bindi af Sögu Húsavíkur. Einar Njálsson bæjarstjóri kynnti þessa framhaldsáætlun á fundi bæjarstjórnar á dögunum.
Hann gat þess að málið hafi verið lengi í dagskrá og komið til kasta þriggja bæjarstjórna. 1. bindi Sögunnar, ritað af Karli Kristjánssyni, kom út árið 1981. Aður hafa verið sett tímamörk um „sögulok“ sem ekki hafa staðist og síðast var samþykkt að allur texti skyldi vera tilbúinn í prentsmiðju í september s.l. Það gekk ekki eftir.
Til tals hefur komið að hætta hreint við verkið eða stinga því undir stól í bili. En Sögunefnd og bæjarstjóri mátu það svo að verkið væri svo langt komið og það mikill kostnaður fallinn á það að ekki væri verjandi að hætta á þessu stigi. Og bæjarstjórn féllst á þetta sjónarmið.
Einar sagði að þrátt fyrir tafir væri ekki hægt að ásaka söguritara fyrir að ritunin hefði dregist svo úr hömlu. Í ljós hefði komið að verkið var mun yfirgripsmeira en gert var ráð fyrir.
Sú áætlun sem bæjarstjórn samþykkti nú gerir ráð fyrir að eitt bindi verði tilbúið á hverju ári næstu þrjú árin og að verkinu ljúki árið 2000. Standist áætlun ekki er samningurinn ógildur og söguritara ber að skila öllu efni til Húsavíkurbæjar, bænum að kostnaðarlausu.
Ekki eru tæmandi upplýsingar um heildarkostnað Húsavíkur vegna ritunar Sögu Húsavíkur en endanlegur kostnaður þegar verkið verður komið út, þ.e. launakostnaður og prentkostnaður, gæti orðið um 15 milljónir. Kostnaður við söguritunina frá 1. janúar 1990, þegar Sæmundur Rögnvaldsson hóf störf, nemur um 8 milljónum. Nokkur ár þar á undan hafði séra Björn Helgi Jónsson unnið við efnisöflun og ritun. — JS