Fiskiðjusamlag Húsavíkur: Allt er fimmtugum fært

Forráðamenn Fiskiðjusamlags Húsavíkur horfa björtum augum fram á veginu á hálfrar aldar afmæli fyrirtækisins.

Fiskiðjusamlag Húsavíkur fagnar 50 ára afmæli sínu með veglegri afmælishátíð n.k. laugardagskvöld á Hótel Húsavík, en félagið varð 50 ára 19. júlí s.l. N.k. föstudag 7. nóvember verður aðalfundur félagsins haldinn.

Í fréttatilkynningu frá FH í tengslum við aðalfundinn kemur m.a. fram að hagnaður af rekstri þess rekstrarárið 1. september 1996 til 31. ágúst 1997 var tæpar 132 milljónir. Tap varð hins vegar af reglulegri starfsemi upp á 51 milljón. Hagnaður af sölu eigna nam rúmum 195 milljónum, þar af voru 160 milljónir vegna sölu skipa og 35 milljónir vegna hlutabréfa. Hagur FH batnaði mjög á árinu í samanburði við árið á undan. Þá var 198 milljón króna tap af reglulegri starfsemi fyrirtækisins.

Heildartekjur FH s.l. rekstrarár voru 2.064 milljónir og rekstrargjöld námu 1.804 milljónum. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld var 259 milljónir. Afskriftir námu 151 milljón og fjármagnsgjöld 159 milljónum.

Hagnaður 1998
Í rekstraráætlun fyrir 1998 er gert ráð fyrir 20 milljóna króna hagnaði og eignasölu að upphæð 300 milljónum króna, sem skilar 50 milljónum í hagnað, þannig að heildarhagnaður næsta ár er áætlaður 70 milljónir. Umsvif félagsins eru áætluð 2,4 milljarðar, sem er talsverð aukning frá yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að vinna úr 13.050 tonnum í landi, þar af 10.550 í rækjuverksmiðjum FH.

Stærstir í rækju
Miklar breytingar hafa orðið á rekstri FH á s.l. ári og raunar uppstokkun á ýmsum þáttum eftir sameiningu FH og Höfða. Fyrirtækið hefur selt þrjú skip og keypt í staðinn Húsvíking ÞH 1, eitt stærsta og glæsilegasta skip íslenska flotans.

Þá keypti FH rækjuverksmiðju Geflu á Kópaskeri og er þar með orðinn stærsti rækjuverkandi landsins með tvær fullkomnar rækjuverksmiðjur í starfsemi. Með samstarfi við önnur fyrirtæki hefur FH tryggt löndunarsamninga sem skila um 3 þúsund tonnum á næstu árum og tryggir vinnslu á yfir 10.000 tonnum af rækju árlega.

Ákvörðun hefur verið tekin um endurnýjun bolfiskvinnslu með kaupum á nýrri flæðilínu, skurðarvél o.fl. Þá var flutningadeild FH lögð niður og félagið keypti 9% í landflutningafyrirtæki Aðalgeirs Sigurgeirssonar hf. Og FH á 20% hlut í Laugafiski. Þá eru uppi áform um sölu á netagerð fyrirtækisins.

Meðallaun um 2 milljónir
Að meðaltali störfuðu 229 manns hjá FH á árinu og meðal­laun voru 1,952 þúsund. Í september 1995 voru hluthafar í FH 120 en nú tveimur árum síðar eru þeir 404.

Stærstu hluthafar FH eru: Húsavíkurbær 41,4%. Kaupfélag Þingeyinga 15,6%. Hlutabréfasjóðurinn Íshaf 9,1%. Trygging hf. 9,0%. Olíufélagið Esso 7,5%. Íslenski fjársjóðurinn ehf. 3,4%. Verkalýðsfélag Húsavíkur 1,9%. Samvinnulífeyrissjóðurinn 1,5%. Íslenski hlutabréfasjóðurinn 1,0%. Skeljungur hf. 0,6%.

Helstu viðskiptavinir FH erlendis eru: Í Englandi; Marks & Spencer, Young’s og Tesco. Covee í Belgíu. Eismann í Þýskalandi. Red Lobster og Dairy Queen í USA og Itochu í Japan.

Eignaaukning
Hlutafé FH í lok reikningsársins var rúmar 619 milljónir. Í lok júlí fór fram 100 milljón króna hlutafjárútboð á genginu 2,75. Hluthafar nýttu sér forkaupsrétt og raunar var eftirspurn meiri en framboð. Gengi hlutabréfa hefur hækkað; úr 1,95 í desember 1996 í 2,65 til 2,75 í september 1997. Markaðsverðmæti FH er um 1,7 milljarðar króna. Eignir félagsins í lok reikningsársins hafa aukist um rúmar 800 milljónir króna á árinu. Eiginfjárhlutfall í lok reikningsársins er 23,6% en var 12,8% í árslok árið á undan.

FH er stærsti framleiðandi innan íslenskra sjávarafurða með um 14% af heildarsölu ÍS. FH er jafnframt stærsti rækjuframleiðandi innan ÍS með um 47% heildarsölu á landfrystri rækju.

Ferðamannafrystihús
Á árinu var opnað ferðamannafrystihús á vegum FH, hið fyrsta á landinu og áformað er að þróa það áfram á næsta ári. Fyrirtækið hefur nú opnað heimasíðu á Internetinu og í lok ágúst var það skráð á Verðbréfaþing Íslands. Átak hefur verið gert í endurmenntun starfsmanna og 70 starfsmenn hafa sótt tölvunámskeið á vegum félagsins.

Í september s.l. hófst vinna við umhverfisvottun ISO 14001 á rækjuverksmiðju FH á Húsavík, sem er sú fyrsta á landinu sem vinnur að slíku. Með þessu vill stjórn FH stuðla að bættri ímynd íslensks sjávarútvegs og umhverfisvernd.

Umbrotatímar
„Síðustu ár hafa verið umbrotatímar í íslenskum sjávarútvegi. Með samstilltu átaki hluthafa, stjórnar FH, ásamt starfsfólki öllu, hefur fyrirtækið skipað sér á skömmum tíma í fremstu röð nútímafyrirtækja í matvælaiðnaði með skýr markmið, stefnu og framtíðarsýn. Starfsfólk er reiðubúið að takast á við nútímarekstur, sem gerir kröfur um arðsemi, heiðarleika, umhverfisvitund, hagræðingu og að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu.“ sagði Einar Svansson, framkvæmdastjóri FH.