Kristján Olgeirsson hefur verið ráðinn knattspyrnuþjálfari Völsungs. Leikmannamál eru að skýrast en mörg lið eru á höttunum eftir Arngrími Arnarsyni.
Kristján Olgeirsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Völsungs í knattspyrnu. Kristján lék með liðinu um árabil og einnig með ÍA. Hann á 1 landsleik að baki. Hann hefur áður komið að þjálfun liðsins, þjálfaði með Helga Helgasyni á sínum tíma og náði ágætum árangri. Kristján er sjómaður að atvinnu en hyggst koma í land í mars og til þess tíma mun Ásgeir Baldurs væntanlega sjá um æfingar.
Að sögn Jóns Arnar Baldurs, formanns knattspyrnuráðs, liggur ekki fyrir á þessu stigi hvernig leikmannahópurinn verður skipaður. Nánast allir sem léku í fyrrasumar eru tilbúnir að halda áfram. Óvissa er þó með Arngrím Arnarson en hann er mjög eftirsóttur og m.a. hafa Leiftur og Breiðablik verið að bera víurnar í hann. Jón Arnar segir að allt kapp verði lagt á að halda Agga.
Þá er öruggt að Róbert Skarphéðinsson mun snúa heim eftir ársdvöl hjá KA. Og varnarjaxlinn Baldvin Viðarsson er að ná sér eftir langvarandi meiðsli og ætlar að spila með í sumar. Mikill styrkur er af endurkomu Balla og Danna. — JS