Fjölmennt var á Fosshóteli Húsavík í dag þar sem Eimur, Norðurþing, Landsvirkjun og Íslandsstofa stóðu fyrir opinni ráðstefnu undir heitinu „Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri.“ Um 250 gestir mættu, bæði heimamenn og fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs, og ríkti þar óvenju jákvæð stemning um framtíð svæðisins.
Fundinum var skipt í þrjá hluta þar sem rætt var um uppbyggingu á grænum grunni, grunnstoðir Bakka og langtímasýn til næstu kynslóða. Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir ávarpaði gesti og staðfesti að stjórnvöld hygðust styðja kröftuglega áframhaldandi þróun á Bakka. Fjöldi framsögumanna kynnti tækifæri í orku, innviðum, hringrásarhagkerfi og fjölbreyttum atvinnugreinum.
Þrátt fyrir áskoranir vegna lokunar PCC á Bakka þá báru pallborðsumræður í lok fundar með sér bjartsýni, samstöðu og trú á framtíð svæðisins og ljóst að mikill hugur er í samfélaginu til frekari uppbyggingar atvinnulífs.
Ljósmynd: Halldóra Kristín Bjarnadóttir

