Þýskir fjárfesta hyggjast endurvekja akureyska flugfélagið Nice Air, sem fór í gjaldþrot í maí 2023. Kynntu nýir eigendur og forsvarsmenn félagsins í dag áform sín á blaðamannafundi í Flugsafninu á Akureyri. Þar lagði Martin Michael, einn forsvarsmanna hins nýja Nice Air, áherslu á að endurreisn félagsins yrði gerð af varfærni, í áföngum og með áherslu á traust og góðan rekstur.
Nice Air vakti mikla athygli þegar félagið hóf millilandaflug um Akureyrarflugvöll árið 2022, en reksturinn reyndist skammvinnur, en aðstæður af völdum Brexit gerðu reksturinn erfiðan.
> English: Rebuilt Nice Air to be developed with caution
Nýtt rekstrarlíkan og varfærin uppbygging
Á fundinum í dag kom skýrt fram að nýja Nice Air verði byggð á svokölluðu hybrid virtual carrier rekstrarlíkani. Í því felst að félagið mun ekki eiga eða reka eigin flugvélar í upphafi, heldur kaupa flugrekstur af rótgrónum flugrekendum, á sama tíma og Nice Air sjálft verður samningsaðili gagnvart flugvöllum, þjónustuaðilum og farþegum.
Þetta fyrirkomulag á að gera félaginu kleift að velja flugvélar við hæfi hverrar leiðar og tímabils, ólíkt fyrra rekstrarlíkani þar sem ein flugvél þurfti að henta mjög ólíkum áfangastöðum. Michael lagði áherslu á að endurreisnin yrði „maraþon, ekki spretthlaup“, og að markmiðið væri að forðast of hraða stækkun í ljósi þess hversu mörg flugfélög hafa fallið á undanförnum misserum.
Fyrstu flug í febrúar til Kaupmannahafnar
Samkvæmt því sem fram kom á fundinum er stefnt að fyrstu flugum nýja Nice Air milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í febrúar. Fyrstu tvær ferðirnar eru áformaðar fimmtudaginn 19. febrúar og sunnudaginn 22. febrúar, sem gerir farþegum kleift að nýta langa helgi annaðhvort norðanlands eða í Danmörku.
Flugin verða í upphafi framkvæmd af dönsku flugfélagi og vélin mun ekki bera lit eða merki Nice Air, en forsvarsmenn sögðu slíkt meðvitaða ákvörðun í upphafi til að halda kostnaði í lágmarki og einbeita sér að áreiðanleika og gæðum þjónustunnar.
Áhersla á þjónustu fremur en lággjaldaflug
Á blaðamannafundinum kom jafnframt fram að Nice Air hyggst ekki keppa við hefðbundin lággjaldaflugfélög. Þess í stað verður lögð áhersla á svokallaða „boutique“ þjónustu, þar sem farþegar fá meðal annars innifalið snarl, drykk og farangur í fargjaldinu.
Stefnt að frekari leiðum til framtíðar
Ef fyrstu flugin ganga vel hyggst Nice Air kanna möguleika á fleiri áfangastöðum á álagstímum, svo sem yfir sumar og helgar, auk svokallaðra „pop-up“ fluga og leigufluga, líkt og jólaferðar til Berlínar sem félagið bauð upp á áður. Til lengri tíma litið er markmiðið að koma á reglulegu flugi allt árið milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, þó með minni flugvélum utan háannatíma.
Forsvarsmenn lögðu ríka áherslu á að byggja upp traust eftir gjaldþrot fyrra félags og sögðu að allar ákvarðanir yrðu teknar með langtímasjónarmið að leiðarljósi.
Hægt er að horfa á beina útsendingu Húsavík.com frá blaðamannafundi Nice Air hér að neðan

