Anna Lísa hlutskörpust í upplestrarkeppni

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Sjóminjahúsinu á Húsavík í gær, þar sem tólf nemendur í 7. bekk stigu á svið og lásu fyrir fullan sal. Nemendur lásu í þremur umferðum: fyrst svipmyndir úr Strokubörnunum á Skuggaskeri eftir Sigrúnu Eldjárn, síðan ljóð að eigin vali úr verkum Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og loks ljóð að eigin vali. Í fyrsta sæti varð Anna Lísa Guðmundsdóttir, í öðru Liljar Þór Aldeyjar Arnþórsson og í þriðja sæti Sigrún Lillý Aðalsteinsdóttir.

Arna Júlía Hallbjörnsdóttir hóf hátíðina með fallegum söng við undirleik Tiiu Laur. Allir þátttakendur fengu bókagjöf og viðurkenningarskjal, en bókin í ár var Í belg og biðu með efni eftir Svein Einarsson. Verðlaunahafar hlutu jafnframt peningagjöf. Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Safnahúsið á Húsavík eru helstu bakhjarlar verkefnisins og fá bestu þakkir í frétt á vefsíðu Borgarhólsskóla.