Fjárhagsáætlun Norðurþings samþykkt samhljóða

Einhver stærstu mál sveitarstjórna eru fjárhagsáætlun hvers árs og aðalskipulag. Bæði málin voru til umræðu á fundi sveitarstjórnar í vikunni. Ytri skilyrði í rekstri sveitarfélaga hefur í senn bæði verið þeim hagfellt og sumum ekki. Stærðir sem við ráðum ekki við og höfum ekki bein áhrif á. Verðbólgan er og stefnir í að vera þrálatari en vonir stóðu til.

Áfram áhersla á málefni barna- og ungmenna sem sést best á einni stærstu framkvæmd sem sveitarfélagið hefur ráðist í á seinni árum með byggingu félagsmiðstöðvar og frístundar á Húsavík. Frístundastyrkur hækkur verulega. Sundlaugaráform í Lundi í Öxarfirði og gólf og stúka í íþróttahúsinu á Húsavík. Hófleg og skynsamleg þétting byggðar í þéttbýlinu Húsavík áformuð. Ein gata á ári og vænta má áhrif af framkvæmdum við nýtt hjúkrunarheimili í Þingeyjarsýslum. Umfram allt hefur verið og er áhersla á atvinnuuppbyggingu á Bakka og víðar í sveitarfélaginu til að skapa tekjur og störf enda útsvar ein helsta tekjulind hvers sveitarfélags.

Því miður fallið frá því að sinni að halda áfram að lækka álagningarprósentu á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Áfram þarf að draga úr rekstri en laun vega þyngst í öllum rekstri. Ríflega 60% af útgjöldum sveitarfélagsins renna til félagsþjónustu og fræðslu- og uppeldismál. Það er skynsamlegt að hið opinbera stígi í auknum mæli inn þegar árar líkt og nú í sveitarfélaginu. Það stefnir í lántöku vegna framkvæmda en undir engum kringumstæðum má það fara til reksturs. Við göngum nú í gegnum fjárhagslega krísu og mikilvægt að fólk átti sig á hrifum hennar á rekstur sveitarfélagsins. Við búum hinsvegar vel og ekki tekið lán á kjörtímabilinu og reksturinn í jafnvægi og tækifæri til að byggja upp.

Við tókum aðeins beygju en ekki inn í blindbötu. Við leitum nú að jafnvægi og þurfum að komast í gegnum þetta tímabil áður en atvinnuuppbygging hefst á ný á Bakka eftir of langt stopp í raunverulega áherslu í þeirri uppbyggingu. Nýting auðlinda, orkuvinnsla og hafnsækin starfsemi eru lykilatriði. Við erum í klassísku millibilsástandi; tekjur lækka hraðar en hægt er að laga kerfið að þeirri staðreynd og brýnt að valda ekki samfélagslegu tjóni. Útgjaldahliðin bregst ekki jafn hratt við og tekjur dragast saman. Þjónusta, innviðir og launakostnaður eru að mestu leyti fasti til skamms tíma. Það er algeng nálgun eða tímabundinn aðhaldspakki; frysta og tefja stærri fjárfestingar sem eru ekki brýnar strax. Það er lykilatriði til lengri tíma. Óskynsamlegar fjárfestingar nú munu hafa afleiðingar seinna meir. Þess vegna þarf að vernda grunnþjónustuna.

Sýnum þess vegna aðhald sem kaupir tíma – ekki aðhald sem dregur úr þrótti samfélagsins. Við þurfum að komast í gegnum samdrátt án þess að missa tækifærin. Það er bjart framundan á Bakka og í atvinnumálum enda mikil og sterk áhersla á atvinnuuppbyggingu á kjörtímabilinu. Norðurþing er sterkt, fjölbreytt og víðfeðmt sveitarfélag. Við höfum staðið okkur vel sem sjá má á samhljóða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fólk þolir samdrátt – það þolir ekki vonleysi. Við ætlum að byggja upp, skapa atvinnutækifæri og undirbúa næsta vaxtarskeið með trú á samfélagið. Tölum skýrt, líka um erfiða hluti. Þetta er kafli, ekki endapunktur.

Áfram Norðurþing!

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings