Flugeldasala er ein helsta fjáröflunarleið björgunarsveita í Þingeyjarsýslum og hefur farið vel af stað fyrir þessi áramót. Blaðamaður Húsavík.com leit við á tveimur sölustöðum flugelda í kvöld, annars vegar hjá Kiwanisklúbbnum Skjálfanda í húsnæði Björgunarsveitarinnar Garðars á Húsavík og hins vegar hjá Björgunarsveitinni Þingey í húsnæði sveitarinnar að Stórutjörnum.
Ingi Sveinbjörnsson sagði söluna hafa farið ágætlega af stað á Húsavík. „Við opnuðum 28. desember og salan fer bara þokkalega af stað, alveg eftir plani. 30. desember er vanalega besti söludagurinn og svo í kringum hádegi á gamlársdag,“ segir Ingi.
Kiwanisklúbburinn sér um söluna í samstarfi við Björgunarsveitina Garðar, sem er stærsti styrkþegi klúbbsins á hverju ári. „Við höfum selt flugelda frá stofnun Kiwanisklúbbsins árið 1974,“ segir Ingi.
Steinar Karl hjá Björgunarsveitinni Þingey tekur í sama streng og segir söluna einnig hafa farið vel af stað, en bendir á að morgundagurinn skipti mestu máli. „Þetta er langstærsta fjáröflun sveitarinnar og í gegnum flugeldasöluna koma um 60% af tekjum hennar, sem nýtast til að sinna mikilvægum verkefnum hér á svæðinu.“ Steinar segist bjartsýnn á góða sölu í ár og hvetur alla til að koma og næla sér í flugelda fyrir áramótin.

