Gluggi tækifæranna er opinn á Bakka

Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að móta hringrásargarð á Bakka þar sem öll starfsemi er knúin endurnýjanlegri jarðhitaorku og fyrirtæki munu nýta strauma hvert frá öðru. Tilgangurinn og framtíðarsýnin fyrir Bakka er skýr, að umbreyta ónotuðum hráefnum í verðmæti, skapa þýðingarmikil störf og byggja upp sjálfbært atvinnulíf fyrir Norðausturland.

Fyrsta fyrirtækið á Bakka var PCC BakkiSilicon, en það hóf starfsemi sína árið 2018 og er eina fyrirtækið sem Landsvirkjun hefur gert samning við um afhendingu raforku á Bakka. Afar mikilvægt er fyrir Norðausturland sem og Ísland allt að framhald verði á uppbyggingunni á Bakka á næstu misserum sem og að hjólin snúist á ný hjá PCC BakkiSilicon. Það snýr að nýtingu fjárfestinga, atvinnutækifærum, gjaldeyrisöflun og að Norðurland eystra með Akureyri sem borgarsamfélag verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu til jafns við suðvesturhorn landsins.

Nýverið kom út skýrsla starfshóps forsætisráðherra um stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni. Skýrslan varpar einna helst ljósi á þau tækifæri sem sannarlega eru til staðar á Bakka auk þess sem starfshópurinn leggur til 5 tillögur sem gagnast annars vegar Bakka sérstaklega en hins vegar öðrum svæðum á landinu almennt.

Sú tillaga sem fyrst og fremst gagnast Bakka er ráðning verkefnastjóra sem ætlað er hraða vinnu við þróun nýrra verkefna á Bakka og nýta þá innviði sem eru þegar til staðar. Ráðningaferli verkefnastjóra stendur yfir um þessar mundir. Aðrar tillögur snúa að alþjóðatengingum og hafnarframkvæmdum, uppbyggingu raforkukerfisins og einföldun leyfisferla þegar kemur að uppbyggingu atvinnu og raforkukerfisins almennt.

Stór innviðaverkefni efla svæðið enn frekar

Nú þegar hefur Stangarbakkagarður verið settur á samgönguáætlun árið 2029. Garðurinn mun kyrra aðstæður í Húsavíkurhöfn og fækka dögum þar sem skip eiga í erfiðleikum með að leggja að Bökugarði. Þá hefur orkumálaráðherra tilkynnt um byggingu nýs tengivirkis á Bakka sem er mikilvægur áfangi annars vegar fyrir tvítengingu rafmagns á milli Þeistareykja og Bakka og hins vegar fyrir dreifingu á raforku inn á iðnaðarsvæðið á Bakka. Þessi ákvörðun gerir Bakka enn betur í stakk búinn til að taka á móti fyrirtækjum sem vilja staðsetja starfsemi sína innan hringrásargarðsins.

Þróunarfélagið Grænn iðngarður á Bakka ehf. er einn mikilvægasti styrkleikinn á Bakka. Með ráðningu verkefnastjóra mun félagið tryggja einn inngang að hringrásargarðinum og að fjárfestar fái á einum staða allar uppplýsingar um svæðið ásamt því að samhæfa vinnu lykilaðila og veita þannig fyrirtækjum mikilvægan stuðning við undirbúningsferlið sem nauðsynlegt er áður en að uppbyggingu kemur.

Ráðstefna um uppbyggingu á Bakka. Ljósmynd: HKB

Kraftmikil skilaboð af ráðstefnu um Bakka

Þann 20. nóvember síðastliðinn var hvort tveggja undirbúningsvinnunni sem þegar hefur farið fram vegna svæðisins á Bakka og framtíðarsýninni gerð góð skil á ráðstefnu Eims, Norðurþings, Landsvirkjunar og Íslandsstofu undir yfirskriftinni Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri. Ljóst er af þátttöku í ráðstefnunni, en um 250 manns sátu hana, og umfjöllun um hana að áhugi á svæðinu er umtalsverður. Enda er Bakki vel staðsettur og svæðið í stakk búið til að taka á móti fyrirtækjum í fjölbreyttri atvinnustarfsemi og af ólíkri stærð. Gluggi tækifæranna er opinn, Bakki er tilbúinn, sveitarfélagið Norðurþing er sömuleiðis tilbúið, með sterka innviði, til að taka á móti fólki og fyrirtækjum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn, ráðum og stjórnum
Helena Eydís Ingólfsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi, formaður byggðarráðs og stjórnarformaður Græns iðngarðs á Bakka,
Kristinn Jóhann Lund, sveitarstjórnarfulltrúi, formaður fjölskylduráðs,
Þorsteinn Sævar Benediktsson, fulltrúi í skipulags- og framkvæmdaráði,
Kristján Friðrik Sigurðsson, fulltrúi í hafnarstjórn,
Sigurgeir Höskuldsson, stjórnarformaður Orkuveitu Húsavíkur.

About Helena Eydís Ingólfsdóttir

View all posts by Helena Eydís Ingólfsdóttir →