Hlöðufell og Candy Bar söfnuðu fyrir Hagsmunasamtök barna á Húsavík

Hagsmunasamtök barna á Húsavík hafa átt viðburðaríkt ár og staðið fyrir fjölbreyttum verkefnum sem stuðla að sköpun, samveru og vellíðan barna á Húsavík. Á meðal verkefna ársins var barnamenningarhátíðin „Framtíðin er okkar“, sem haldin var í september í samstarfi við STEM Húsavík. Hátíðin stóð yfir víða um bæinn og var boðið upp á smiðjur, skapandi tilraunir, ratleik og þátttöku barna á öllum aldri. Þá héldu samtökin einnig páskabingó í Skrúðgarðinum og þema­fundi fyrir foreldra um velferð og málefni barna í samfélaginu.

Á fjölskylduhátíðinni Jólabærinn minn, sem fór fram um síðustu helgi, stóð Paulina Hajłasz-Lesman frá Candy Bar og Hlöðufelli fyrir jólalotterí í þágu samtakanna. Í gær afhenti hún Axel Árnasyni, formanni samtakanna, söfnunarféð.

Í stjórn Hagsmunasamtakanna sitja Axel Árnason, Benedikt Þorri Sigurjónsson, Brynja Rún Benediktsdóttir, Elva Héðinsdóttir og Guðný Ósk Agnarsdóttir. Í varastjórn eru Elena Martinez og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.

„Við þökkum Candy Bar og Hlöðufelli kærlega fyrir að styrkja samtökin. Við munum nýta styrkinn í þágu barna og fjölskyldna,“ sagði Axel við afhendinguna. Sigurborg Ósk segir styrkinn munu nýtast vel þar allt starf samtakanna er unnið af sjálfboðaliðum og því nýtist svona stuðningur beint í viðburðahald.

Samtökin leggja áherslu á að halda áfram uppbyggingu viðburða og stuðningi við fjölskyldur á Húsavík á komandi ári.