Húsvíkingar líta yfir farinn veg um áramót

Um áramót gefa margir sér tíma til að líta yfir farinn veg og hugsa til framtíðar. Hér deila nokkrir einstaklingar úr samfélaginu hugleiðingum sínum um árið sem er að líða, um áskoranir og áföll, gleðistundir og árangur, og hvaða væntingar þau bera í brjósti til ársins 2026.

Lilja Skarphéðinsdóttir

Er ég hugsa til baka yfir árið 2025, elsku ljósi strákurinn minn, þá hafa skipst á skin og skúrir hjá mér, eins og gengur. Áföllin voru ekki mörg, en þau voru stór. Það var erfitt að sjá á eftir tveimur systkinum yfir í sumarlandið og því fylgir mikill söknuður. Um leið finnur maður þó svo mikinn kærleik, hlýju og þakklæti, bæði hjá samferðarfólkinu og okkar yndislega og frábæra heilbrigðisstarfsfólki sem hugsar svo fallega um sína skjólstæðinga.

Ánægjustundirnar voru margar og góðar. Ég prófaði í fyrsta skipti að fara til Kanarí, eins og „heldra fólk“ gjarnan gerir, og skil ég það vel að það geti orðið ávanabindandi. Svo var það ekki bara fallegi bærinn okkar, Húsavík, sem varð 75 ára, það varð einnig ég. Og ekki bara ég, heldur allur árgangurinn, eins og ein góð kona sagði sem kunni að koma vel fyrir sig orði. Þetta héldum við skólasystkinin upp á á Mærudögum.

En toppurinn var þegar börnin mín, tengdabörn og barnabörnin héldu mér dásamlegan dag á yndislegri eyju úti í Noregi á afmælisdaginn.

Um leið og ég þakka fyrir góða heilsu, þakka ég fjölskyldu minni, góðum vinum, Eldri borgara félaginu, kirkjukórnum mínum og fyrir svo margar góðar stundir á árinu 2025. Ég óska ykkur öllum gleði, gæfu og fullt af skemmtilegum ævintýrum á árinu 2026.

Helga Björg Sigurðardóttir

Það sem stendur upp úr hjá mér á síðasta ári persónulega er að eignast sjötta barnabarnið mitt og svo gladdi það mig mjög að fá litlu fjölskylduna heim til Húsavíkur og fjölgaði þá um þrjá í sveitarfélaginu. Fjölskylduferð með Ruth og börnum til Kaupmannahafnar og svo að fylgja Arnóri og Ruth ásamt Þorbjörgu, til London í desember þar sem þau kepptu sem lið í Hyrox London, var geggjað. Ég fór með góðum vinkonum á Crossfit grunnnámskeið í janúar og síðan höfum við æft af kappi og haft mjög mikið gagn af því en líka gaman. Frábær félagsskapur í Smiðjunni. Styrkleikarnir voru einstök upplifun sem við fjölskyldan tókum þátt í og það er bara ekki hægt að lýsa stemningunni með orðum. Í Sjóböðunum hefur gengið vel og stendur þar uppúr tónleikarnir með Mugison sem verða mögulega aldrei toppaðir en hver veit. Gleðilegt nýtt ár.

Anna Soffía Halldórsdóttir

Það sem mér hefur fundist standa uppúr á líðandi ári hér í fallega bænum okkar er þrautseigja þeirra sem reka hér fyrirtæki stór sem smá . Heimamenn, Garðarshólmi, Skóbúðin, kaffihúsið Hérna og fleiri ásamt því að nýtt bakarí er á döfinni og nýtt kaffihús kom í flóruna. Með því að versla í heimabyggð getum við haldið þessum stöðum í bænum okkar. Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við viljum hafa þessa þjónustu og þá þurfum við að sjálfsögðu að nýta þjónustu sem er í okkar bæ.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Á árinu ferðaðist ég til Banff í Kanada á ráðstefnu skóla leiðtoga. Áhugavert að fræðast um frumbyggja á svæðinu og komast að því að íslenskir álfar og tröll eru þekkt meðal þeirra. Sótti námsstefnu evrópskra skólaleiðtoga til Rómar á Ítalíu þar sem menning og saga er allt um kring. Engu að síður sér maður hvað við höfum það gott í íslensku skólaumhverfi þegar litið er til ytri þátta. Heimsótti vinabæ okkar Álaborg í Danmörku og eftir þá heimsókn situr kynning á hafnarsvæðinu og atvinnuuppbyggingu í tengslum við það. Við fjölskyldan ferðuðumst um Austurland í sumar í blíðskaparveðri.

Ég er þakklátur fyrir góða samstarfsfélaga í Borgarhólsskóla og glæsilegt skólastarf. En það er sannarlega ánægjulegt að skólinn í samstarfi við fleiri aðila vann Íslensku menntaverðlaunin árið 2025.
Sveitastjórnarfundir fóru fram víða í sveitarfélaginu en raunir vegna tímabundinnar lokunar PCC á Bakka standa sannarlega upp úr hvað varðar hagi sveitarfélagins alls. Mikill hluti tímans utan minnar hefðbundnu dagvinnu fór í málefni sveitarfélagins, funda með hagsmunaaðilum, kynna og segja frá stöðu sveitafélagins. Það er ljóst að hér í Norðurþingi eru ótal tækifæri til uppbyggingar, á Bakka, við Öxarfjörð, á Raufarhöfn og víðar.

Á árinu opnuðust ný tækifæri í miðbæ Húsavíkur, framkvæmdir hófust við byggingu félagsmiðstöðvar og frístundar, ný stúka og gervigras svo dæmi séu tekin.
Að ganga með erlendum gestum úr skemmtiferðaskipum er ákaflega skemmtilegt verkefni og fólk heillast að öllu því sem hér er í boði og samfélagið ekki fjölmennara en þetta.
Áhugaverðar bækur á árinu; Horfinn heimur eftir Húsvíkinginnn Þröst Ólafsson, Hringferð um Gjögraskaga sem er leiðarlysing Björns Ingólfssonar og The courage to be dislaiked eftir Ichiro Kishimi og Fumitake Koga.

Mér finnst bæði gefandi og gagnlegt að setja hugleiðingar niður á blað í texta eða myndum. Eins að taka myndir og birta. Að syngja á kórloftinu og við ýmis tækifæri og kallaður í útkall. Forgjöfin stóð í stað.

Ég þakklátur fyrir yndislega fjölskyldu, maka og börn. Það stendur upp úr árinu að ég bað Guðnýju Þóru að gifast mér. Hún játaði því.

Bergþór Bjarnason

Það hefur verið krefjandi ár hjá okkur í Norðurþingi sérstaklega í atvinnumálum. Rekstrarstöðvun PCC á Bakka hefur haft víðtæk áhrif á allt samfélagið. En við horfum björt fram á veginn og við vorum með mjög vel heppnaða ráðstefnu hér í haust þar sem sýnt var fram á að við erum tilbúin að byggja upp iðnaðarsvæðið á Bakka og fjölmörg tælifæri eru til staðar hér í okkar samfélagi.
Við vorum með mikla aukningu á árinu bæði í komu skemmtiferðaskipa og fjöldi farþega í hvalaskoðun hefur aldrei verið meiri sem er mjög jákvætt.

Helga Dögg Aðalsteinsdóttir

Það verður erfitt að toppa frábært ár 2025. Við fjölskyldan byrjuðum árið á því að sjá Liverpool – Manchester United gera 2-2 jafntefli sem hentaði ágætlega en ég held með Manchester og restin af fjölskyldunni Liverpool. Ég varð fertug og hélt upp á það í góðra vina hópi, tek fagnandi á móti þessum nýja kafla. Elti strákana mína fjóra í fjölmörgum ferðum innan- og utanlands spila fótbolta. Fór í draumaferð til Ítalíu með besta saumaklúbbnum og mökum, ferð sem við munum lifa lengi á. Og svo auðvitað  “comeback” Elfars Árna í Völsung og árangur þeirra í sumar.

Ég er að vinna með besta fólkinu, forréttindi að hlakka til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Horfi bjartsýn á árið 2026, trúi því að uppbygging verði á svæðinu eftir erfitt ár í atvinnumálum. Við hjá Íslandsbanka erum tilbúin að taka þátt í þeirri vegferð. Takk fyrir mig 2025, velkomið 2026.

Regína Sigurðardóttir

Fyrst og fremst þakklæti, ég get þakkað fyrir svo ótal margt: Góða vini, fjölskyldu,heilsu og þau tækifæri sem lífið hefur uppá að bjóða. Ég fór í þrjár utanlands ferðir á árinu og naut þess svo sannarlega að skoða framandi lönd og fá nasasjón af mismunandi menningarheimum,
Svo ákvað nafna mín Regína Margrét að spila með Völsungi í sumar. Það var dásamlegt að hafa hana hjá mér og kynnast hluta af þeim fyrirmyndar ungmennum sem við eigum.. Þeirra er framtíðin og ég hef fulla trú á að hún sé björt. Árið hefur verið annasamt hjá mér, það finnst mér gott, því ég kveið satt best að segja dálítið fyrir því að finna til tilgangsleysis þegar ég hætti að vinna, en sú varð nú aldeilis ekki raunin. Ég hef alltaf nóg að gera og nýt þess að geta stjórnað mínum tíma sjálf….

Stefán Guðmundsson

Úr stafsemi okkar hjá Gentle Giants:
Fádæma blíða á liðnu tímabili. Fjöldi viðskiptavina meiri en áður.
Einstakur hópur starfsfólks í öllum deildum; hvar allir voru á sömu blaðsíðu hvern einasta dag allt árið. Fjölskyldustemmning. Blue Family.
Mikið lagt í innri fjárfestingar. Fyrirbyggjandi á öllum sviðum. Vélar, tæki og húsnæði.
Miklar framkvæmdir í Flatey og vinsældir að aukast.
Gentle Giants fagnar 25 ára afmæli á næsta ári 2026.
Stöðug ný markmið og verkefni í mótun.
Fyrsta grásleppuvertíðin í aflamarkskerfinu. Stórkostleg breyting til batnaðar.
The Little Fish Company að brillera.

Úr persónulega lífinu:
Móðir mín elskuleg kvaddi síðasta vor eftir langvarandi veikindi.
Við hjónin fögnuðum 10 ára brúðkaupsafmæli.
Ég hef óskaplega gaman af því sem ég fæst við, fjölbreytt og skemmtileg uppbygging. Það heldur manni við efnið.
Ég held alltaf að á “næsta ári” geti maður aðeins farið að hægja á sér……það hefur ekki gerst ennþá – bætir frekar í 😊
Lífið er oft snúið en skemmtilegt. Með frábæru fólki.
Óska öllum gleðilegs árs og bjartrar framtíðar.