Þau lýsa fegurst
er lækkar sól,
í blámaheiði
mín bernsku jól.
Undir lok nóvember fer jólafiðringurinn að gera vart við sig, þó enn sé alltof langt til jóla. Allt fer hægt af stað, en smám saman verður tilfinningin sterkari.
Snjórinn hleðst upp og myndar djúpa dali og háa hryggi í Bárugötunni og hæstur er hann fyrir framan Sjöuna. Þar er tilvalið að grafa hella inn í snjóskaflinn, helst tvo til þrjá og tengja saman með göngum. Þegar framkvæmdum er lokið er slegið upp veislu, heitt kakó og kringlur og logandi kerti, sem komið er fyrir á syllum í hellisveggjunum.
Kalt, stillt og stjörnubjart, englar í snjónum, hlátur og gleði, spennan að magnast, enda kominn fyrsti desember. Jólin… jólin…. margt að hugsa og stundum erfitt að sofna.
Pabbi er enn á sjó og nú á að fara í siglingu til Englands, hvað skyldi hann koma með úr útlandinu ? En stundum eru vond veður á hafinu. Bara að hann komist aftur heill heim.
Á öllum heimilum standa mömmur í stórþrifum, loft og veggir, gluggar og gólf þvegið og skrúbbað. Allt tekið út úr skápum og upp úr skúffum. Ekkert má undanskiljast, á jólum verður allt að vera hreint.
Svo er farið að baka, ilmurinn fyllir öll vit og allir baukarnir í búrinu fyllast smám saman af mömmukossum, gyðingakökum, hálfmánum og minnst tíu öðrum smákökusortum. Lagkökur, hvítar og brúnar, sitja umfangsmiklar á bökunarplötum, vafðar í smjörpappír. Þessi hvíta með rabbarbarasultu og sú brúna með hvítu smjörkremi. Umm, hvað þetta er girnilegt allt saman.
Nú kemur að laufabrauðsgerðinni. Amma í Sælandi er verkstjórinn, hún sýður kúmen í mjólk og sigtar hveiti. Síðan er hnoðað, svo úr verður hvítt og fallegt laufabrauðsdeig með svörtu kúmeni, sem amma breiðir út. Allir koma að útskurði, sem vettlingi geta valdið. Viggi frændi á forláta vasahníf, sem hann beitir af listfengi við útskurðinn og við hin fáum hann stundum lánaðan. Þegar kemur að steikingunni, erum við amma bara tvær eftir í eldhúsinu, hún steikir og ég pressa laufabrauðskökurnar og smám saman verða kökuhlaðarnir fleiri og hærri á eldhúsbekknum. Laufabrauðið hverfur síðan ofan í pappakassa og fær sinn stað í kalda búrinu fram að jólum. Enginn má laumast í kassana, sem eru kirfilega lokaðir.
Það ber þó stundum við, að hlé verður að gera á laufabrauðsgerðinni, því kall berst um bæinn allan. Fyrstu jólasveinarnir eru komnir til byggða og þeir ætla að sýna sig á svölunum á Kaupfélaginu. Börn og fullorðna drífur að og allir horfa í andakt á sveinkana dansa á svölunum og syngja hátt, undir stjörnunni fegurstu og einu sem trónir á þaki Kaupfélagsins. Einn spilar meira að segja á harmonikku. Gleðin ljómar af litlum andlitum og þegar jólasveinarnir hverfa af svölunum, er beðið í eftirvæntingu þess að þeir komi með hvítu pokana sína og gefi börnunum dökkrauð og safarík og ilmandi jólaepli að bíta í.
Það er niðdimm nótt og allir í fastasvefni. Allt í einu er barið á útidyrahurðina og mamma fer fram, ég læðist á eftir. Úti stendur pabbi, kominn heim úr siglingunni. Ó, hvað ég er glöð og fegin. Hann tínir inn marga kassa og töskur. Eitthvað er nú þarna, sem vert er að skoða, en það verður að bíða morguns. Spennan magnar lítinn kropp og það er erfitt að sofna aftur. Morguninn eftir er góssið dregið fram. Baukar af útlendu sælgæti í marglitum bréfum, epli, appelsínur og alls konar framandi gosdrykkir. Síðan eru opnaðir kassar, fullir af himnesku jólaskrauti, hreindýr á sleðum, jólasveinar með bjöllur og glitrandi litríkar lengjur, sem hengja á í loftin og veggskraut af ýmsu tagi. Svo eru þarna dularfullir kassar sem ekki má opna og eiga að geymast til jóla.
Það lækkaði stöðugt
á lofti sól.
Þau brostu í nálægð
mín bernskujól.
Uppi á lofti í Höfn sitja vinkonurnar saman og lesa jólaljóð. Bláu skólaljóðin geyma fjársjóð, það finnst þeim að minnsta kosti, Jól eftir Stefán frá Hvítadal. Þær geta lesið þetta ljóð aftur og aftur og gleyma sér í þeirri djúpu upplifun sem það færir þeim. En niðri gengur Gerða rösklega til verka, alltaf í önnum og hleypur léttilega milli þriggja hæða, oft á dag.
Hve allt var dýrðlegt
við annan brag,
á Þorláksmessu,
þann þráða dag.
Um bekki var strokið
og brík og hólf.
Og hirzlur þvegnar
og húsagólf.
Þorláksmessumorgunn. Í fjarska má heyra í jarðýtunni ryðja snjó af götum og nú færist þetta hljóð, sem er forboði jóla, nær og nær og blessuð ýtan ræðst til atlögu við skaflana í Bárugötunni, dagar snjóhellanna eru nú taldir. Ruðningarnir eru jafnháir húsunum og nú fara karlarnir út með skóflur til að moka hlið út í götuna. Inni sýður hangikjöt í potti og um hádegið fara jólakveðjurnar að hljóma í útvarpinu. Nú eru líka hillur og húsgögn bónuð, strokið af bekkjum og borðum og skúruð öll gólf. Svo straujar mamma jóladúkana og setur kerti í stjaka. Jólatréð hefur verið skreytt og Viggi frændi, að vanda, búinn að koma með lóðboltann sinn til að gera við jólatrésséríuna. Allt er að verða svo hátíðlegt.
Eftir kvöldmat, þegar þau yngri eru sofnuð, býður mamma mér með sér suður í Kaupfélag. Ég geng stolt við hlið hennar niður Lágina, því þetta er svo spennandi, að fara í búð á Þorláksmessukvöld. Þegar við göngum fram hjá Barnum og Mjólkurbúðinni, blasir jólatréð með öllum marglitu ljósunum við og frá svölunum á Kaupfélaginu berast úr hátalara jólalög, sem Ellý Vilhjálms syngur. Þessi einstaka stund fer rakleiðis í minningabankann minn.
Aðfangadagur upp er runninn. Í eldhúsinu er mikið að gera og mamma á þönum. Allir fara í bað og klæðast sparifötum. Um klukkan fjögur er barið mjög, mjög harkalega á útidyrnar. Það eru jólasveinarnir að koma með jólakortin. Þeir fá í staðinn útlent nammi og epli í pokann sinn og fara glaðir og háværir áfram upp götuna.
Ó, láttu, Kristur,
þá laun sín fá,
er ljós þín kveiktu,
er lýstu þá.
Rétt fyrir klukkan sex förum við systkinin í kirkjuna með pabba og hlýðum á boðskap jólanna. Jólin eru komin og anda þeirra má sjá í augum allra kirkjugesta, sem kveðjast og bjóða gleðileg jól. Síðan er haldið heim og hátíðin gengur í garð með gleði og friði. Það koma alltaf jól.
14. desember 2015
Valgerður Gunnarsdóttir

