Jólahefðir: „Fortíðin má ekki vera akkeri heldur jarðvegur sem nærir framtíðina“

Yfir hátíðirnar ætlar Húsavík.com að fá að fræðast um uppáhalds jólasiði og hefðir nokkurra bæjarbúa, og þær minningar sem ylja frá jólum liðinna ára. Hjálmar Bogi Hafliðason forseti sveitarstjórnar Norðurþings ríður á vaðið en hann er eins og flestir vita mikið jólabarn.

„Allt frá því að við pabbi settum upp tíu ljósa rússnesku luktajólaseríuna fyrir jól í bernsku, til þess að gefa sjálfur í skóinn í umboði Skyrgáms hin síðari ár,“ segir Hjálmar brosandi spurður um hlýjar jólaminningar. „Enda klæddist ég rauðu með föður mínum í mörg ár.“

Jólahefðir breytast en sumir siðir eiga alltaf sinn sess

„Jólahefðir hafa breyst með tímanum, en að fara í messu aðfangadag hef ég gert frá frá því ég var barn. Umfram allt eru það upplifun og tilfinningar sem kalla fram jólaandann hjá mér. Það að ganga í logni þegar snjóar stórum flygsum og raula falleg og hugljúf jólalög sem kallar fram bros og fallegar minningar er notalegt. Yfir jólin horfi ég alltaf á kvikmyndina Schindler’s List, til að muna hvað við getum lifað í fallegu heimi þrátt fyrir voðaverk mannanna. En sjálfur reyni ég að festast ekki í viðjum vanans heldur að upplifa og skapa jólahlýju eða jólakyrrð á komutíma jóla, lesa, kyrra hugann með hækkandi sól og finna jafnvægið í að velja hefðir af meðvitund og endurhugsað af hugrekki. Eins og leyfa barninu á heimilinu að skreyta tréð sem ég hef notað frá því að ég man eftir mér án þess að breyta eða setja út á. Fortíðin má ekki vera akkeri heldur jarðvegur sem nærir framtíðina,“ segir Hjálmar að lokum.

Ljósmyndir: Hafþór Hreiðarsson