Verkefnið Jólasveinasmiðjan sem leggur áherslu á sagnaarf í Mývatnssveit og sögu Jólasveinanna í Dimmuborgum hlaut 1,5 milljón króna styrk úr Sprotasjóði.
Verkefnið kynnir nemendur Reykjahlíðarskóla fyrir kvikmyndatækni og stafrænni frásagnalist og undirbýr þau fyrir þátttöku í raunverulegri framleiðslu sem fer fram í Mývatnssveit árið 2026, en þá er stefnt að því að taka upp leikið jóladagatal ásamt Jólasveinunum í Dimmuborgum. Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga.
Í frétt á vef sjóðsins segir: „Nemendur fá fræðilega og verklega þjálfun í leiklist, kvikmyndatækni og tónlistarsköpun undir handleiðslu fagfólks. Verkefnið stuðlar að jafnræði í skapandi námi í dreifbýli, eflir tæknilæsi og styrkir notkun stafrænnar frásagnalistar í starfi skólans á komandi árum.“
Verkefnið er unnið í samstarfi Reykjahlíðarskóla, Castor miðlunar og Mývatnsstofu, en framleiðsla Jóladagatalsins hafði áður hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra.
Í samræmi við ritstjórnarstefnu Húsavík.com skal tekið fram að Castor miðlun er systurfélag Könnunarsögusafnsins sem er eigandi og útgefandi fréttavefsins Húsavík.com

