Kaldi selur Bjórböðin

Einn eigenda brugghússins Kalda á Árskógssandi, segir söluna á Bjórböðunum marka ákveðin tímamót í rekstrinum. „Við erum sátt við þetta. Nú getum við einbeitt okkur betur að Kalda,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, einn eigenda Kalda í samtali við Morgunblaðið.

Bjórböðin voru opnuð árið 2017 sem hluti af ferðaþjónustu tengdri brugghúsinu, en voru sett á sölu í byrjun sumars 2024. Þá greindi Agnes frá því að rekstrarumhverfi ferðaþjónustu hefði verið erfitt í kjölfar covid-faraldursins og vaxtastefnu stjórnvalda, sem hefði haft veruleg áhrif á skuldir fyrirtækja.

Að sögn Agnesar hefur söluferlið tekið tíma, en niðurstaðan geri fyrirtækinu kleift að horfa fram á veginn með skýrari áherslur. Hún segir rekstur Kalda ganga vel og nefnir að eftirspurn eftir íslenskum vörum hafi verið mikil.

„Okkur gengur vel í Kalda enda eru Íslendingar duglegir að kaupa íslenskar vörur. Við erum með mikið af fólki í vinnu og ætlum að fagna 20 ára afmæli á næsta ári,“ segir Agnes.

Ljósmynd af vefsíðu Bjórbaðanna