Á aðalfundi í vor var samþykkt að breyta nafni Húsavíkurstofu í Markþing, nafni sem á sér raunar langa sögu og tengist upprunalegri hlutverkaskipan félagsins. Nafnabreytingin endurspeglar áherslur stjórnar um sameiginlega markaðssetningu fyrirtækja og öflugt samstarf í Þingeyjarsýslum.
Saga Markþings nær aftur til ársins 1984, þegar aðilar í ferðaþjónustu stofnuðu Ferðamálafélag Húsavíkur með það að markmiði að kynna ferðir um Demantshringinn og náttúruperlur svæðisins. Árið 2002 var svo stofnað Markaðsráð Húsavíkur og nágrennis, sem síðar tók upp nafnið Markþing. Þegar félagið varð að sjálfseignarstofnun árið 2010 var nafnið breytt í Húsavíkurstofu, en nú árið 2025 var ákveðið að taka upp hið fyrra nafn.
Heiðar Hrafn Halldórsson, stjórnarmaður í Markþingi og hvatamaður að breytingunum segir að nafnabreytingin sé ekki stefnubreyting heldur sé verið að færa félagið nær kjarnanum, að sameina hagaðila, styrkja áfangastaðinn og leggja fjármuni í verkefni sem nýtast öllum.
„Upphaflegur tilgangur félagsins í stofnsamþykktum, sem raunar gildir enn, er fyrst og fremst að vera samnefnari fyrirtækja í ferðaþjónustu og verslun út á við og jafnframt að standa fyrir sameiginlegum markaðs- og kynningarmálum fyrir áfangastaðinn Húsavík og næsta nágrenni,“ segir Heiðar. Í dag heldur Markþing utan um tvö skráð vörumerki, annars vegar Demantshringinn (e. The Diamond Circle) og hins vegar vörumerkið Húsavík – The Whale Capital of Iceland, en auk þess markaðssetur félagið undir heitinu Visit Húsavík á vef og samfélagsmiðlum. Þá hefur Markþing verið með herferð vegna flugs easyJet til Akureyrar.
Hraður vöxtur á stuttum tíma
„Nafnið Húsavíkurstofa var tekið í notkun árið 2010 og um leið varð félagið að sjálfseignarstofnun. Á þessum átta árum hafði mikið vatn runnið til sjávar, velgengi húsvískrar ferðaþjónustu var orðin slík að stærstu fyrirtækin voru með öflugt markaðsstarf sem ef til vill hafði að einhverju leyti áhrif á verkefnaáherslur félagins. Tekjur stofunnar voru litlar og stærstu verkefnin voru bundin í rekstri upplýsingamiðstöðvar í Hvalasafninu, rekstri tjaldsvæðis og framkvæmdastjórn Mærudaga. Með tímanum hefur hinsvegar alltaf komið betur í ljós hvað sameiginleg áfangastaðamarkaðssetning er mikilvæg. Við teljum kröftum félagsins og ábata aðildarfyrirtækja betur borgið í því að fjármunir séu lagðir í sameiginlega markaðssetningu heldur en einstaka viðburðarhald og annan rekstur,“ segir Heiðar.
„Það þýðir þó ekki að við séum eingöngu að auglýsa okkur út fyrir bæinn og má þar nefna afar vel heppnað markaðsátak í sölu Húsavíkurgjafabréfa sem hafa jú þann kost að skila sér krónu fyrir krónu til baka í samfélagið. Það þótti því vera betur lýsandi að taka upp nafnið Markþing á nýjan leik og færa sig nær upphaflegu markmiði félagsins. Að auki komu fram ábendingar um að nafnið Húsavíkurstofa væri ekki nægilega lýsandi enda erum við með tvö fyrirtæki í Reykjahverfi, eitt í Tjörneshreppi og tvö í Þingeyjarsveit inni í samtökunum auk þess að eiga vörumerkið “Demantshringurinn” sem við höldum á lofti statt og stöðugt sem einni albestu ferðamannaleið landsins þótt víðar væri leitað.“ Heiðar segir sölu Húsavíkurgjafabréfa ganga vel nú í aðdraganda jóla.
Ný vefsíða Visit Húsavík í loftið

Markþing setti á dögunum í lofið nýja vefsíðu VisitHúsavík.com. En hvernig er nýja síðan frábrugðin fyrri vefsíðu? „Viðmót síðunnar er mjög notendavænt og einfalt. Lagt hefur verið upp úr því að auðvelt sé að rata um síðuna og að notandinn verði aldrei strand í leit sinni að ákveðnu efni. Gerðar voru tvær síður, ein á íslensku og ein á ensku. Þær eru mjög líkar en þó ekki að öllu leyti með sama efninu. Fyrir okkur sem búum á Húsavík og nágrenni er mesta breytingin sjálfsagt fólgin í viðburðardagatalinu sem innan stjórnarinnar hefur fengið gæluheitið “Nýja Skráin”! Hugmyndin er sú að viðburðir séu listaðir upp í tímaröð og í smáauglýsingastíl. Notandinn getur svo smellt á viðburð vilji hann vita meira og inni á þeirri undirsíðu fengið oftar en ekki tengla á ennfrekari upplýsingar. Viðburðarhaldarar munu sjálfir geta sent inn tilkynningar um viðburði inn í dagatalið í gegnum sérstakt skráningarform innan síðunnar (verið er að leggja lokahönd á það þessa dagana). Þetta dagatal mun hafa alla burði til að sýna á heildrænan hátt yfirlit yfir alla viðburði hér á svæðinu, allt frá tónleikum Kirkjukórs Húsavíkurkirkju til Aðalfundar Golfklúbbs Húsavíkur. Við munum hinsvegar öll þurfa að hjálpast að við að benda viðburðarhöldurum á að senda viðburðina þarna inn því eflaust mun það taka tíma að koma þessum möguleika inn í minnið á fólki,“ segir Heiðar.
Markþing vill auka sameiginlega markaðssetningu
Hvaða markmið hafið þið fyrir komandi ár? „Ljóst er að það mun þurfa að fylgja vefsíðunni Visit Husavik úr vör, markaðssetja hana, bæta á hana efni eftir atvikum en sérstaklega vinna í því að koma viðburðardagatalinu inn í hug fólks. Við erum einnig í viðræðum við ljósmyndara um að taka myndir af starfsemi okkar aðildarfyrirtækja sem hægt verði að nota á vefsíðunni og í annarri markaðssetningu. Við viljum auka sameiginlega markaðssetningu og má finna vísir af því í auglýsingaskjám á Akureyrarflugvelli nú þegar. Við horfum einnig til þess að vinna með Norðurþingi að skilta- og kortagerðarmálum sem er verkefni sem raunar hófst fyrr á þessu ári,“ segir Heiðar að lokum.


