Met var slegið í dag þegar sala Húsavíkurgjafabréfa náði 18,5 milljónum króna fyrir þessi jól. Húsavíkurgjafabréfin eru gefin út af Markþing, samtökum aðila í verslun og ferðaþjónustu, í samstarfi við Sparisjóður Þingeyinga. Blaðamaður Húsavík.com leit við í Sparisjóðnum síðdegis á Þorláksmessu þar sem Gunnhildur Gunnsteinsdóttir var í óða önn að stimpla gjafabréf. Að hennar sögn hefur salan gengið vonum framar þetta árið.
Meðan blaðamaður var þar kom Brynjar Baldursson, verslunarstjóri Heimamanna, inn um dyrnar til að sækja vænan bunka gjafabréfa fyrir sitt starfsfólk. Hann sagði jafnframt að þegar væri farið að bera á innlausnum í versluninni, enda hefðu sumir vinnustaðir afhent gjafabréfin snemma í desember í þeim tilgangi að örva verslun í heimabyggð í aðdraganda hátíðanna. Binni sagði það ekki nokkra spurningu að gefa starfsfólki sínu Húsavíkurgjafabréf í jólagjöf.
Heiðar Hrafn Halldórsson hjá Markþingi staðfesti í samtali við Húsavík.com að um met væri að ræða í ár. „Salan er nú um einni milljón króna hærri en á sama tíma í fyrra og við erum gríðarlega ánægð með það, sér í lagi þar sem PCC datt að mestu út í ár,“ segir Heiðar.

