Frá áramótum verður dreifingu ferjumiða til íbúa með lögheimili í Hrísey hætt og rauðu og grænu miðarnir sem margir þekkja leggjast af.
„Það er bæði dýrt að framleiða og óumhverfisvænt að hafa miða. Fyrir utan allt umstang að muna að ná í miða á bæjarskrifstofuna, týna þeim ekki og þess háttar,“ segir Ásrún Ýr Gestsdóttir þjónustu og upplýsingafulltrúi hjá Akureyrarbæ og verslunarstjóri í Hrísey.
Akureyrarbær og Almenningssamgöngur hafa unnið að því í sameiningu að finna aðrar hagkvæmari og umhverfisvænni lausnir. Framvegis verður fjöldi íbúa í hverri ferð talinn og skráður beint inn í rafrænt kerfi. Verklag helst óbreytt fyrir þau sem eru með afsláttarmiða og þau sem kaupa stakar ferðir.
„Starfsfólk verður svo með rafrænan íbúalista til þess að skrá þær ferðir. Aðrir farþegar nota enn sína afsláttarmiða sem hægt er að kaupa í ferjunni, og þau sem fara staka ferð og greiða bara hefðbundið gjald, halda því áfram,“ segir Ásrún.

