Undanfarin 15 ár hefur Facebook-síða sem haldið er úti í nafni Kaupfélags Þingeyinga reglulega skotið upp kollinum, en umræða um hver standi að baki hefur verið hávær í samfélaginu á Húsavík síðustu daga. Á síðunni hefur birst efni sem sett er fram í nútíð, líkt og Kaupfélagið væri enn í fullum rekstri. Blaðamaður Húsavík.com ræddi við vel á annan tug einstaklinga í Þingeyjarsýslum í þeirri viðleitni að komast að því hver stæði eða stæðu að baki síðunni. Flest þau sem rætt var við sögðust hafa gaman af færslunum og sögðu þær vekja upp minningar um liðna tíð. Enginn þeirra sem rætt var við gat þó sagt með vissu hver stæði á bak við síðuna, þótt margar ábendingar um líklega aðila kæmu fram.
Blaðamaður hafði í framhaldi samband við nokkra þá einstaklinga sem nefndir voru sem hugsanlegir aðstandendur síðunnar, en enginn þeirra vildi kannast við að standa að gjörningnum.
Við HB báðir „saklausir“
Allmargir nefndu nafn Hjálmars Boga Hafliðasonar, forseta sveitarstjórnar Norðurþings. „Glaður vildi ég sinna Kaupfélagi Þingeyinga en verð því miður að neita því að vera á bak við þessa síðu,“ sagði Hjálmar. Hann benti blaðamanni á að ræða við Gunnar Jóhannesson, eiganda ferðaskrifstofunnar Travel North og umsjónarmann fyrrum fasteigna Kaupfélagsins að Garðarsbraut 5. Í stuttum skilaboðum á Facebook svaraði Gunnar: „Við HB báðir „saklausir“ :)“, og átti þar við sig og Hjálmar Boga, en athygli vakti að Gunnar setti orðið saklausir innan gæsalappa og bætti broskalli við.
Síðan hefur verið virk frá árinu 2010, þó með mjög óreglulegri birtingu efnis. Sum ár hefur ekkert birst, en á þessu ári hefur síðan sent frá sér fjórar færslur í nafni Kaupfélagsins. Athygli vakti að á svipuðum tíma og síðan spurði fylgjendur um uppáhalds Húsavíkurjógúrtina þeirra fór Karl Hreiðarsson að ganga með forláta KÞ-derhúfu við ýmis tilefni. Karl er sonur Hreiðars Karlssonar, fyrrverandi kaupfélagsstjóra. Eftir ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Karli barst blaðamanni tölvupóstur á tíunda tímanum í gærkvöldi þar sem hann sagðist vera á ferðalagi erlendis og ekki í aðstöðu til að svara spurningum blaðamanns um Kaupfélagsmálið. Bætist hann því í hóp grunaðra, enda hefði í styttra máli mátt svara spurningu blaðamanns neitandi.

Bendi gaf frá sér Kaupfélagsskiltið
Benedikt Kristjánsson var einnig nefndur af nokkrum þeirra sem rætt var við. Um árabil var merki Kaupfélags Þingeyinga yfir inngangi verkstæðishúsnæðis trésmiðjunnar Val úti á Höfða. Benedikt er til þessa dags eini einstaklingurinn sem hefur birst á mynd á síðunni, en árið 2023 var birt ljósmynd af honum og starfsmönnum Vals við endurbætur á húsnæði N1 við Héðinsbraut, þar sem Olíusala KÞ var til húsa um áratuga skeið. Kom þá í ljós upprunaleg merking Olíudeildar KÞ. Undir þá mynd ritaði Stefán Bjarni Sigtryggsson í Steindal „Það er algjör glæpur ef þessi merking verður látin hverfa,“ og tóku margir undir.
„Ég er mjög hrifinn af þessari síðu, en ég er ekki á bak við hana, ég er saklaus,“ sagði Benedikt glettinn þegar blaðamaður hringdi í hann um hádegisbilið í gær. „Ég er meira að segja búinn að gefa frá mér Kaupfélagsskiltið. Ég gaf Birki Söebeck það og það er nú komið í safnið hjá honum.“
Benedikt sagðist hafa nokkra góða grunaða og nefndi m.a. til leiks þá Ogga og Hlífar Karls. „Þeir eru miklir húmoristar,“ sagði Bendedikt. Hann nefndi einnig Heiðar Hrafn Halldórsson hjá Hvalasafninu sem hugsanlegan aðstandanda síðunnar, enda hafi Heiðar lengi barist fyrir varðveislu minja um sögu Kaupfélagsins. Um tíma var einnig sýning um sögu KÞ á efri hæð safnsins. „Ég veit ekkert um þetta og miðað við þær síður sem Kaupfélagið fylgir á Facebook þá þykir mér þú líklegri en ég,“ sagði Heiðar og beindi orðum sínum til blaðamanns.

Fréttahaukurinn og skákmeistarinn Hermann Aðalsteinsson í Reykjadal deildi í gær einni af færslum síðunnar á Facebook-síðu sinni og velti þar upp spurningunni hvort „afturgengið KÞ“ væri til góðs eða ills. Í stuttu samtali við Húsavík.com sagðist hann ekki vita hver stæði að baki síðunni, en taldi þó ljóst að þar væri á ferðinni „einhver spaugari eða jafnvel einhver úr fyrrum stjórn Kaupfélagsins.“
Formaður segir marga gleðjast að sjá gamla KÞ merkið
Blaðamaður hafði í framhaldi samband við Erlu Sigurðardóttur, sem gegndi síðast formennsku í stjórn Kaupfélagsins áður en félagið var formlega lagt niður árið 2017. „Við vissum af þessari síðu, en ekki hver stæði að baki henni. Þetta var ekki rætt formlega í stjórn KÞ, en við vorum meðvituð um þetta og ég sé ekki betur en að margir hafi gaman af að sjá merki Kaupfélagsins birtast á skjám sínum öllum þessum árum síðar,“ sagði Erla og bætti við að hún telji ekki að um sé að ræða einhvern úr síðustu stjórn félagsins. „Spurning hvort Tryggvi Finns veit eitthvað um þetta?“
Mörg önnur nöfn voru nefnd, meðal annars Arngrímur Arnarson sem var einn þeirra sem stóðu að hinni hressu síðu Víkin.is á árum áður og er þekktur húmoristi. Þá voru nokkrir fyrrum starfsmenn KÞ nefndir til leiks sem eru brottfluttir.
Ágúst Jónatansson, sem lengi starfaði sem deildarstjóri hjá Kaupfélagi Þingeyinga, sagði síðu sem þessa ekki einsdæmi í eftirmálum samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. „Ég veit til dæmis að nemendur í Samvinnuskólanum á Bifröst héldu um tíma úti léninu sis.is eftir að SÍS rúllaði,“ sagði Ágúst og vísaði þar til síðu sem nemendur á Bifröst héldu úti um skeið og fengu meðal annars Guðna Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, til að opna við sérstaka athöfn í skólanum.
Ólíkt SÍS-vef Bifrestinga, þar sem ljóst var hverjir stóðu að baki, er hins vegar með öllu óljóst hver eða hverjir halda úti Facebook-síðu Kaupfélags Þingeyinga. Síðan talar ávallt um Kaupfélagið í nútíð og eins og allar deildir þess og útibú séu enn starfandi. Það er því ljóst að sá eða sú sem við stjórnvölin stendur þekkir bæði vel til staðhátta og sögu Kaupfélags Þingeyinga.

Gaman að vita hvaða tímatal þessi spaugari notar
Í febrúar 2022 birtist til að mynda færsla þar sem 140 ára afmæli Kaupfélagsins var fagnað og auglýst sérstök tilboð í öllum deildum félagsins. Undir þá færslu skrifaði Ágúst athugasemd þar sem hann sagðist forvitinn um „hvaða tímatal þessi spaugari notar“. KÞ-síðan svaraði um hæl: „Góðar hugmyndir eru tímalausar,“ og birti í kjölfarið viðtal við Ágúst undir fyrirsögninni Verslunin á að vera fyrir fólkið. „Ég man ekki hvort það var Ingibjörg heitin á Degi eða Þormóður Jónsson sem sá um Boðbera sem tók þetta viðtal á sínum tíma, en þetta var hnittið svar af hálfu þeirra sem standa að baki síðunni,“ sagði Ágúst. Spurður hvort hann telji að um sé að ræða einhvern sem starfaði samtímis honum hjá Kaupfélaginu sagðist hann ekki geta fullyrt neitt.
„Ég hef ekki hugmynd um hver heldur utan um þessa síðu, hvort það er einhver eldri eða yngri. Þú gætir prófað að heyra í Didda Krafti, hann er nú þekktur spaugari,“ bætti Ágúst við.
Kveðja að handan eða tímavél?
Margar skondnar athugasemdir hafa birst undir færslum á síðu Kaupfélagsins. Í gær birtist til dæmis tilkynning um vörutalningu þann 2. janúar 2026, og velti Sigríður Garðarsdóttir fyrir sér hvort gamla KÞ hafi lent í tímavél á meðan Björgvin Már Vigfússon segist áhyggjulaus, enda ætli hann að vera í afmælisveislu Jóns Gnarr þann 2. janúar, en Gnarr er eins og þau vita sem horfðu á uppistand hans, fæddur á vörutalningardaginn. Undir jólakveðju sem virðist skönnuð úr gömlu Víkurblaði eða Boðbera KÞ sem birtist á síðunni í síðustu viku spyr reykdælingurinn Örn Byström Jóhannsson „Er þessi kveðja að handan ?“

Eftir því sem blaðamaður kafar dýpra í málið koma fleiri nöfn fram, en enginn hefur hingað til viljað kannast við að standa að þessum skemmtilega gjörningi. Þau sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvött til að hafa samband við fréttastofu Húsavík.com í síma 848-7600 eða með tölvupósti á netfangið frettir@husavik.com
Hægt er að skoða síðuna á slóðinni www.facebook.com/kaupfelag


