Raufarhöfn tilbúin að taka á móti störfum án staðsetningar

Nanna Steina

Framkvæmdum við Ráðhúsið á Raufarhöfn, atvinnu- og samfélagssetur er nú formlega lokið. Rýmið er tímamóta verkefni fyrir samfélagið og býður upp á fjölbreytta aðstöðu fyrir fjarvinnu, þjónustuaðila, frumkvöðla og stofnanir. „Við erum himinlifandi með útkomuna,“ segir Nanna Steina Höskuldsdóttir samfélagsfulltrúi Norðurþings á Raufarhöfn

Nanna Steina útskýrir að verkefnið hafi sprottið af raunverulegri þörf. „Í Ráðhúsinu höfum við síðustu ár tekið á móti aðilum sem vinna í skemmri tíma á Raufarhöfn, sér í lagi yfir sumartímann. Oft er þétt setið og var það í raun kveikjan að umsókninni. Það vantaði betri aðstöðu og fleiri rými.“
Hún bætir við að nýtt húsnæði geti haft raunveruleg áhrif á byggðaþróun:
„Á Raufarhöfn vantar okkur fólk. Að hafa aðstöðu sem þessa verður vonandi til þess að við fáum til okkar aðila sem vilja koma og taka störfin með sér, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma. Eins að bjóða upp á aðstöðu fyrir einyrkja. Ég tel að það að vera með svona kjarna styrki samfélagið og auki lífsgæði íbúa.“

Verkið er styrkt af Byggðastofnun í gegnum framlög á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar, sem og með mótframlagi sveitarfélagsins Norðurþings. Aðstaðan mun nýtast bæði fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum í fjarvinnu og skapandi greinum.

Fjölbreytt starfsemi þegar til staðar þó rými sé fyrir fleiri

Í Ráðhúsinu starfa nú meðal annars Norðurþing, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Sýslumannsembættið, Orkuveita Húsavíkur, Pósturinn og Landsbankinn „Og nóg pláss fyrir fleiri,“ segir Nanna og hvetur bæði fyrirtæki og frumkvöðla til að nýta aðstöðuna.

Rýmið er einnig opið námsmönnum, sem geta nýtt aðstöðuna endurgjaldslaust á dagvinnutíma eða samkvæmt samkomulagi.

Kjörinn staður fyrir fjarvinnu

Ráðhúsið býður upp á rólegt, bjart og vel útbúið vinnuumhverfi þar sem gott samfélag er í forgrunni. „Við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum og samstarfsaðilum á aðventunni og á komandi ári,“ segir Nanna Steina.
Fréttavefurinn Húsavík.com óskar íbúum á Raufarhöfn og í sveitarfélaginu öllu til hamingju með áfangann.