Jólaball Hagsmunasamtaka Barna á Húsavík fór fram á sunnudag í sal Borgarhólsskóla og var vel mætt af börnum og foreldrum. Ágúst Þór Brynjarsson, tónlistarmaðurinn Ágúst, kom og flutti jólalög fyrir ballgesti og þótti gaman að skemmta í sínum gamla skóla.
„Það kom mér á óvart hvað var góð mæting og vel tekið undir í öllum lögunum. Það var áþreifanlega góð orka í salnum og alveg sérstök tilfinning að spila á jólaballi í gamla skólanum mínum. Ég man það vel þegar ég var að spila mörg þessi sömu lög með Villa gítarkennara, bara þarna á sama staðnum á gólfinu. Og ekki skemmdi fyrir að fá jólasveinana úr Dimmuborgum með í sönginn,“ segir Ágúst í samtali við Húsavík.com. Það hefur verið mikið um að vera hjá honum nú í desember en fyrr í mánuðinum sendi hann frá sér nýja útgáfu af laginu Geimferðalangur sem flest þekkja í flutningi Frostrósa frá árinu 2008. Ágúst kom einnig fram á tónleikum með öðrum Húsvíkingi, Ásgeiri, á tónleikum á Græna hattinum á Akureyri á dögunum.
Hagsmunasamtaka Barna á Húsavík hafa staðið fyrir fjölda áhugaverðra viðburða á árinu og stefna að enn meiri starfsemi á nýju ári. Um áratuga skeið stóð Kvennfélagið fyrir jólaböllum í félagsheimilinu sem var, en nú er ný kynslóð tekin við kyndlinum.

Axel Árnason, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Brynja Rún Benediktsdóttir, Elena Martinez og Benedikt Þorri Sigurjónsson úr stjórn Hagsmunasamtaka Barna á Húsavík. Á myndina vantar Guðnýju Ósk Agnarsdóttur og Elvu Héðinsdóttur.

