19:06 – Slökkvilið Norðurþings hefur ráðið niðurlögum eldsins ofan Skálabrekku

Slökkvilið Norðurþings hefur ráðið niðurlögum eldsins ofan Skálabrekku, rétt við ártalið.  „Við erum búnir að komast fyrir þetta núna, sem betur fer, þetta leit ekki vel út um tíma,“ sagði Henning Þór Aðalmundsson slökkviliðsstjóri Norðurþings í samtali við Húsavík.com rétt í þessu.

„Þetta voru fleiri hundruð metra og eldhafið mikið, upp undir 500 metrar þegar mest var. Það var alsherjarútkall og langflestir í liðinu eða um 18 manns mættu og við fengum liðsauka frá björgunarsveitinni og Slökkviliði Þingeyjarsveitar sem kom með tankbíl og slöngulagnarkerfi“, sagði Henning

Vinnuvélar eru nú að tryggja svæðið. „Við fórum með haugsugu af vatni og jarðvegstætara til að rífa upp og koma í veg fyrir að eldur komi upp út frá glóð“, sagði Henning.

Myndir: Hreinn Hjartarson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Örlygur Hnefill Örlygsson