Fjöldi gesta í hvalaskoðunarferðir á þessu ári var sá mesti frá því byrjað var að bjóða upp á ferðir frá Húsavík fyrir þremur áratugum. Alls fóru um 140 þúsund manns í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík á árinu 2025, sem er um 24% aukning frá fyrra ári og veruleg aukning frá fyrri metum. Til samanburðar fóru um 131 þúsund farþegar í ferðir árið 2023. Á meðfylgjandi stöplariti sem birt var á vef Norðurþings má sjá þróun farþegafjölda frá árinu 2016, sem endurspeglar stöðugan vöxt í greininni, en á árinu 2025 buðu fjögur fyrirtæki upp á hvalaskoðunarferðir frá Húsavík.
Árangurinn endurspeglar bæði aukið aðdráttarafl áfangastaðarins og þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í höfninni undanfarin ár. Hafnasjóður Norðurþings hefur fjárfest talsvert í að bæta aðstöðu fyrir rekstraraðila og ferðamenn, sem hefur bætt upplifun gesta, bæði í hvalaskoðun og fyrir gesti af skemmtiferðaskipum.
Rekstraraðilar lýsa árinu 2025 sem einstaklega gjöfulu. Arngrímur Arnarson, markaðsstjóri Norðursiglingar, segir árið hafa gengið frábærlega. „Aðstæður voru virkilega góðar, veðrið lék við okkur miðað við í fyrra og mikið af hval í Skjálfandaflóa. Jákvæðar umsagnir hinna fjölmörgu gesta sem fóru með Norðursiglingu í ár og frábært starfsfólk stendur sérstaklega upp úr,“ segir Arngrímur.
Daniel Chandrachur Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants tekur í svipaðan streng: „Mér finnst frábært að sjá hvernig Húsavík heldur áfram að standa undir orðspori sínu sem miðstöð hvalaskoðunar á Íslandi. Á næsta ári fagnar Gentle Giants 25 ára starfsafmæli og hlökkum við til að halda áfram að bjóða gestum uppá ógleymanlegar upplifanir á Skjálfanda og í Flatey“
Sólveig Ása Arnarsdóttir, rekstrarstjóri Friends of Moby Dick, segir árið hafa verið metfjölda frá fyrstu dögum vors: „Frá því að Vinur bættist í flotann þá var uppselt í allar ferðir út ágúst, þetta var bara rosalegt ár.“


